
„Ég er hundsvekktur með þetta," sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Grindvíkinga eftir tap liðsins gegn KA í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.
Lestu um leikinn: KA 2 - 1 Grindavík
„Mér fannst við eiga meira skilið, sérstaklega eftir seinni hálfleikinn. Mér fannst við koma sterkir inn í seinni hálfleik og vera ofan á en það vantaði herslumuninn að klára leikinn."
„Ég tek ekkert af strákunum, flott frammistaða. Þó ég hafi viljað fá meira út úr þessu í fyrri hálfleik, mér fannst við vera ragir þar. Við töluðum um það í hálfleik að við þurftum að hætta að gefa þeim svæði og bakka alltof langt til baka heldur stíga betur upp og vera aggressívir og þora á móti þeim og það var heldur betur betur það sem ég fékk frá liðinu í seinni hálfleik," sagði Helgi.
Grindvíkingar voru með stærri markmið en átta liða úrslitin.
„Við erum búnir að fara erfiðu leiðina í gegnum þetta, Aftureldingu út, Val úti og svo fáum við KA hérna. Það var kristal klárt að við vorum komnir hingað til að vinna þennan leik. Við erum ekki bara komnir hingað til að ferðast 400 kílómetra til að tapa hérna og vera bara með, við erum með metnað og því miður tókst það ekki í dag, við verðum bara að sleikja sárin í kvöld og gera okkur svo klára fyrir alvöru baráttu sem eftir er í Lengjudeildinni," sagði Helgi.