Palmeiras 1 - 2 Chelsea
0-1 Cole Palmer ('16)
1-1 Estevao ('53)
1-2 Weverton ('83, sjálfsmark)
0-1 Cole Palmer ('16)
1-1 Estevao ('53)
1-2 Weverton ('83, sjálfsmark)
Palmeiras og Chelsea áttust við í 8-liða úrslitum HM félagsliða í nótt og byrjuðu lærisveinar Enzo Maresca betur. Cole Palmer var afar líflegur í byrjun leiks og skoraði fyrsta markið á sextándu mínútu eftir laglegt einstaklingsframtak.
Chelsea var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en leikurinn var jafnari í síðari hálfleik og tókst undrabarninu Estevao að jafna metin á 53. mínútu. Hann var með boltann í afar þröngu færi og tókst að setja hann yfir Robert Sánchez markvörð Chelsea sem bjóst við fyrirgjöf en ekki skoti. Boltinn fór í slána og inn og gerði Maresca tvöfalda skiptingu beint í kjölfarið.
Þar fékk Joao Pedro að spreyta sig í sínum fyrsta keppnisleik með Chelsea eftir að hafa verið keyptur úr herbúðum Brighton á dögunum. Joao Pedro var afar líflegur en tókst ekki að breyta stöðunni sem hélst jöfn allt þar til á lokakaflanum.
Chelsea jók sóknarþungan á lokakaflanum og skilaði það sér með því sem reyndist vera sigurmarkið, sem kom eftir stutta hornspyrnu. Malo Gusto fékk boltann vinstra megin í vítateignum og gaf fyrir, en boltinn fór af varnarmanni og svo í Weverton markvörð Palmeiras og þaðan í netið.
Palmeiras tókst ekki að jafna leikinn svo lokatölur urðu 1-2 fyrir Chelsea sem mætir Fluminense í undanúrslitum.
Athugasemdir