
Lestu um leikinn: Leiknir R. 0 - 1 Fjölnir
„Það er með eindæmum að koma ekki inn á og bíta strax frá sér. Fjölnis liðið fær víti strax eftir tíu mínútur, svo opnast leikurinn aðeins og fullt af færum á báða bóga. Hvorugt lið hafði trú á að skora næsta mark. Þannig mér fannst bæði liðin bara frekar lítil í sér í dag, og við vorum bara litla liðið í dag. Töpuðum þessum þrem stigum hérna á heimavelli sem er ekki gott," sagði Gústi.
Leiknismenn misstu mann af velli snemma í seinni hálfleik þegar Jón Arnar Sigurðsson fékk sitt annað gula spjald. Þeir voru þrátt fyrir það betra liðið allan seinni hálfleikinn en náðu bara ekki að skora.
„Það er eins og það er eitthvað í þessum blessuðu leikjum hjá okkur að það þarf eitthvað að gerast. Í þessu tilviki í dag, þá þurftum við rautt spjald til að taka yfir leikinn, og gerðum það ótrúlega vel. Við höfum þurft að skipta mönnum inn á til að taka yfir leikina, við höfum þurft að vera einu eða tveimur mörkum undir til að taka yfir leikina. Það er bara ekkert nóg, við þurfum að byrja frá fyrstu mínútu til að spila fótboltaleiki. Við getum ekki gefið öðru liðinu forgjöf, sérstaklega í þessari stöðu sem við erum í. Við þurfum bara að rífa okkur upp og áfram gakk í þessu, það er ekkert annað. Við erum búnir að vera í botnbaráttu í allt sumar, núna þýðir ekkert annað en að stíga upp og rífa sig í gang, koma sér upp töfluna," sagði Gústi.
Leiknismenn fengu tvö rauð spjöld í leiknum, eitt á leikmann og eitt á bekkinn. Ágúst er samt ekki á því að það snúist eitthvað að aga.
„Rautt spjald snýst ekkert um agavandamál. Menn eru með 'passion' og leggja allt í leikinn. Það er ástæðan fyrir því að við fengum þessi rauðu spjöld, hefur ekkert með aga að gera," sagði Gústi.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.