David Ornstein hjá The Athletic greinir frá því að Burnley leiðir óvænt kapphlaupið um Kyle Walker, hægri bakvörð Manchester City sem á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Sky Sports tekur undir þessar fregnir og segir að Man City sé búið að samþykkja kauptilboð frá Burnley.
Walker er 35 ára gamall og er enn við góða heilsu, þar sem hann kom við sögu í 34 leikjum með Man City og AC Milan á síðustu leiktíð.
Það eru mörg félög áhugasöm um Walker en hann er meðal efstu manna á óskalista hjá nýliðum Burnley sem eru í viðræðum við Man City um félagaskipti fyrir leikmanninn.
Burnley gæti endað á að borga um 5 milljónir punda til að kaupa Walker. Hann fær tveggja ára samning hjá félaginu.
Walker er vel þekktur í fótboltaheiminum og býr yfir gríðarlegri reynslu. Hann leikur enn fyrir enska landsliðið þrátt fyrir hækkandi aldur, en hann á í heildina 96 landsleiki að baki.
Athugasemdir