Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted gætu verið að fá nýjan liðsfélaga til Birmingham sem er í stórsókn eftir að hafa klifrað upp um deild.
Birmingham gjörsigraði ensku League One deildina á síðustu leiktíð með Willum og Alfons innanborðs. Núna verður baráttan þó talsvert erfiðari þegar liðið er komið upp í Championship deildina og þarf félagið að styrkja sig með leikmannakaupum í sumar.
Birmingham er búið að kaupa Demarai Gray aftur heim frá Sádi-Arabíu og ætlar félagið einnig að krækja sér í sóknarmanninn knáa Kyogo Furuhashi. Bright Osayi-Samuel er þá einnig kominn til Birmingham eftir að samningur hans við Fenerbahce rann út ásamt James Beadle, markverði U21 landsliðs Englands sem kemur á láni frá Brighton.
Sky Sports greinir frá því að Birmingham sé komið langt í viðræðum við franska félagið Rennes um kaup á Kyogo.
Kyogo er þrítugur framherji sem gekk til liðs við Rennes frá Celtic í janúarglugganum eftir að hafa verið algjör lykilmaður hjá skoska stórveldinu.
Hann átti erfitt uppdráttar hjá Rennes þar sem honum mistókst að skora í þeim sex deildarleikjum sem hann fékk að spreyta sig í. Kyogo fékk aðeins 120 mínútur til að sanna sig hjá Rennes og nú vill franska félagið losna við hann.
Kyogo hefur skorað 5 mörk í 23 landsleikjum með Japan.
Birmingham getur keypt Kyogo fyrir um 10 milljónir punda, sem er sama verð og Rennes greiddi til Celtic í janúar.
Kyogo þarf að fá meiri spiltíma til að vera valinn í japanska landsliðið fyrir HM á næsta ári.
Athugasemdir