Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 06. október 2019 22:30
Brynjar Ingi Erluson
Heimild: RÚV 
Sif Atla í hjartnæmu viðtali á RÚV - „Ótrúlega erfið en falleg stund"
Sif Atladóttir
Sif Atladóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Eðvaldsson lést í byrjun september
Atli Eðvaldsson lést í byrjun september
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðskonan Sif Atladóttir var í afar hjartnæmu viðtali á RÚV en hún ræddi þar um föður sinn, Atla Eðvaldsson, sem lést í byrjun september eftir baráttu við krabbamein.

Atli er einn af bestu leikmönnum Íslands frá upphafi og átti glæstan feril með liðum á borð við Fortuna Düsseldorf, Borussia Dortmund, Genclerbirligi, Val, KR og HK.

Eftir ferilinn fór hann út í þjálfun og gerði KR meðal annars að Íslandsmeisturum árið 1999. Fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins í 31 ár.

Atli þjálfaði þá íslenska landsliðið frá 1999 til 2003. Auk þess þjálfaði hann Val, Kristianstad, Þrótt, Aftureldingu, Fylki, ÍBV, Þrótt, Reyni Sandgerði og nú síðast Hamar.

RÚV ræddi við Sif um föðurmissinn á RÚV. Sif var ekki með íslenska landsliðinu gegn Slóvakíu en ummæli fólks á samfélagsmiðlum hreyfðu við henni og fjölskyldu hennar þar sem Atla var minnst.

„Að ganga í gegnum svona er svolítið erfitt og að hafa skilning frá atvinnurekanda er ógeðslega mikilvægt. Það er ekkert gefið í íþróttaheiminum. Við vissum lengi að pabbi væri veikur og hann var hjá okkur í heilt ár og ég gat fylgst með. Hann var frískur hjá okkur og það var ekki fyrr en hann fór heim þar sem maður fór að pæla hvort maður ætti að fara heim eða ekki," sagði Sif í byrjun viðtalsins.

„Ég á samtal við Dóru Maríu, sem missti pabba sinn árið áður og daginn áður en pabbi fer. Eftir það samtal fer ég beint upp á spítala og ég og Egill bróðir sitjum og horfum á leikinn hans Emils með pabba og svo sofnar hann. Ég fer upp á hótel og búin að tala við Þorvald að ég ætlaði að breyta fluginu og fá að vera aðeins lengur á Íslandi því við áttum ekki leik fyrr en á laugardeginum og svo var ég ein í herbergi sem var merkilegt því aðstæður voru eins og þær voru."

„Svo hringir Egill bróðir í mig um morguninn og segir að það sé tímabært að ég komi upp á spítala. Bjössi sækir mig því hann er á fyrsta sinn á Íslandi í sex ár því ég á landsleik. Tímasetningin var rétt og við vorum öll á svæðinu og við förum upp á spítala. Emil bróðir kemur stuttu seinna og Sara systir býr fyrir austan þannig hún er komin með flugi strax um morguninn klukkan 7 þannig hún var komin klukkan 10."

„Við skiptumst á að sitja hjá honum en þetta er ótrúlega mikil sorg en við erum öll saman og það er ekki hægt að vera í kringum pabba án þess að rifja upp sögur án þess að hlægja. Þetta var ótrúlega erfitt en falleg stund. Við erum öll saman með honum í herberginu síðustu stundina og hann fer ekki einn,"
sagði hún ennfremur.

„Við vissum alltaf að pabbi væri þekktur en að sjá öll orðin og sjá hvað hann hefur snert fólk. Þegar maður fór með honum í bæinn þá tók það alltaf tvo eða þrjá tíma. Hann stoppaði alltaf og talaði við það."

Hægt er að sjá viðtalið með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

Sif Atladóttir ræðir við RÚV um föðurmissinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner