Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mið 06. október 2021 17:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Árni Vill: Ég fæ stærri titilinn og eignast barnið eftir nokkrar vikur
Ég get hiklaust sagt já við því að ég hafi verið með drauma
Ég get hiklaust sagt já við því að ég hafi verið með drauma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni skoraði ellefu mörk með Breiðabliki í sumar.
Árni skoraði ellefu mörk með Breiðabliki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Lyon í Frakklandi.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Lyon í Frakklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni og Sara á landsleiknum gegn Hollandi.
Árni og Sara á landsleiknum gegn Hollandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég og konan erum draumana fólk, hún hefur sýnt að það er allt hægt í þessu
Ég og konan erum draumana fólk, hún hefur sýnt að það er allt hægt í þessu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Vilhjálmsson átti gott tímabil með Breiðabliki í sumar en hann var að snúa aftur til félagsins eftir nokkur tímabil í atvinnumennsku. Árni er uppalinn hjá Breiðabliki og skoraði ellefu mörk í 21 leik.

Kærasta Árna, landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir, er ólétt og settur dagur er í nóvember. Árni skrifaði undir tveggja ára samning við Breiðablik þegar hann gekk í raðir félagsins í vor. Sara er samningsbundin franska félaginu Lyon og ætlar að halda áfram að spila í hæsta gæðaflokki eftir barnsburð.

Fótbolti.net heyrði í Árna fyrr í þessari viku.

Er að skoða næsta skref á fótboltaferlinum
„Eins og staðan er núna er ég samningsbundinn Breiðabliki og rosalega lítið sem ég get gefið þér núna varðandi framtíðina. Það eru hlutir sem ég er að skoða með fjölskyldunni," sagði Árni.

„Ég held það liggi nú alveg ljóst að þegar þú eignast fjölskyldu þá er það ekki bara til að eignast barn og koma sér í burtu. Þetta snýst um að gera þetta saman. Við förum yfir þetta á komandi mánuðum, glugginn er ekki opinn fyrr en í janúar þannig það er ágætis tími til stefnu."

Ólíklegt að Árni spili á Íslandi á næsta tímabili
„Það liggur ljóst fyrir að konan er að spila úti og ég vil vera eins nálægt henni og barninu og hægt er. Á sama tíma er ég, og við bæði, að hugsa um ferilinn hjá okkur báðum. Fótboltinn er X lengi og það þarf að sinna honum líka, sérstaklega þegar hann er vinna manns. Að öllum líkindum er mjög ólíklegt að ég verði áfram á Íslandi á næsta tímabili."

Skoðar lið í Frakklandi, Sviss og Austur-Evrópu
Árni hefur spilað í Noregi, Svíþjóð, Póllandi og Úkraínu með Lilleström, Jönköping, Termalica, Chornomorets og Kolos Kovalivka á sínum atvinnumannaferli. Eru lið í nágreni við Lyon sem þú hefur verið að skoða?

„Já, það eru lið í Frakklandi og Lyon er mjög nálægt t.d. Sviss. Ég hef átt samtöl við lið í Frakklandi, bæði í efstu og næstefstu deild. Ég get sagt það hreint út að það er ólíklegt að leikmaður fari beint frá Íslandi í frönsku úrvalsdeildina, nema það sé þá lið sem vantar mann akkúrat í þessa stöðu og er í smá bobba. Það eru lið í fyrstu deildinni sem eru áhugaverð, deildin er erfið og góð lið spila í henni en ég veit ekki hvort það sé eitthvað sem myndi henta mér á þessum tímapunkti fótboltalega séð."

„Í rauninni þegar þú ert kominn frá Íslandi þá ertu í rauninni bara í klukkutíma fjarlægð frá ansi mörgum með flugi. Það gæti komið upp sú staða að ég fari á gamlar slóðir einhvers staðar í austrinu. Það er eitthvað sem á eftir að ræða þegar að því kemur."

„Ég á mjög gott nafn í Úkraínu og í Austur-Evrópu eins og hún leggur sig. Áður en að við vissum að við ættum von á barni þá var ég á leiðinni til Rússlands. Ég hef haldið sambandinu við þá þar og það er aldrei að vita hvort það gæti verið lausn til skamms tíma, ég veit það ekki alveg. Við sjáum hvernig málin þróast á næstu mánuðum."


Fer ekki bara einhvert
„Síðan er það þannig, að þótt þú eignist börn þá á fólk sér sína drauma. Ég og konan erum draumana fólk, hún hefur sýnt að það er allt hægt í þessu og ég á t.d. eftir það markmiðið að spila fyrir landsliðið."

„Þannig það eru nokkrir hlutir sem maður þarf að hugsa út í, ef maður setur fjölskylduna aðeins til hliðar og hugsar um sjálfan sig þá verður maður að hugsa um að þú ferð ekki bara einhvert að spila fótbolta. Það verður að vera einhver hugsun á bakvið hvert er farið. Það verður að hugsa um fjárhagshliðina og ferilinn. Það verður að taka þetta allt saman í einn poka og sjá hvað verður það besta úr því."


Dreymir um að spila keppnisleik með landsliðinu
Varðandi landsliðið, varstu með einhverja drauma þegar hópurinn var valinn síðast? Varstu jafnvel svekktur að fá ekki kallið í síðasta landsliðsglugga?

„Ég get hiklaust sagt já við því að ég hafi verið með drauma. Ég held að það væri ótrúlega vitlaust að leyfa sér ekki að dreyma. Ég á mér ennþá það markmið að spila keppnisleik með landsliðinu og gefa mér annað til landsliðsins. Ég veit að ég hef margt til brunns að bera, bæði fótboltalega og karakterslega séð. Ég var ekki svekktur því ég veit að það eru menn sem eru í sterkari deildum. Mér finnst fullkomlega skiljanlegt að þú takir inn leikmenn úr sterkari deildum ef þeir eru að spila og standa sig vel."

„Hefði ég fengið kallið þá hefði ég verið stoltur og sáttur. Ég er viss um að ég hefði gefið rosa mikið til þessa liðs. Ekkert svekkelsi en það hefði verið gaman."


Fær stærri titilinn
Varstu nálægt því að ganga í raðir rússneska félagsins Krylia í upphafi árs? „Já, mjög."

„Hugsunin var hvar væri best að eignast barnið. Svo kom upp sú hugmynd að vera heima, þá sló maður til. Ég á líka sitthvað ógert hérna heima. Ég fór ekkert í felur með það að ég ætlaði að vinna titilinn, það gerðist auðvitað ekki. En ég fæ stærri titilinn og eignast barnið eftir nokkrar vikur. Þá kannski gleymir maður þessu tímabili," sagði Árni léttur.

„Tímabilið var nú ekkert svo slæmt. Víkingarnir voru mjög flottir og þetta var skemmtilegt sumar. Það var geggjuð keppni allt sumarið."

„Ég hefði ekki viljað fara til nýs félags í Rússlandi eða annars staðar og taka hana með mér án þess að vita hvaða stuðning maður fengi,"
sagði Árni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner