Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 06. október 2022 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Þakklátur að vera kominn til baka - „Ég er Eyjamaður í húð og hár"
Jón Ingason er þakklátur fyrir stuðninginn frá liðsfélögunum
Jón Ingason er þakklátur fyrir stuðninginn frá liðsfélögunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjamaðurinn Jón Ingason ræddi við Fótbolta.net eftir 2-1 sigur ÍBV á FH í Bestu deildinni, en hann fór það yfir erfiðu meiðslin sem hann sigraðist á og samningamálin.

Jón, sem er 27 ára gamall varnarmaður, er uppalinn Eyjamaður og spilaði sinn fyrsta deildarleik aðeins 15 ára gamall en síðan þá hefur hann spilað 101 leik í deild fyrir félagið.

Snemma á síðasta ári meiddist hann illa í Herjólfshöllinni þar sem hann sleit krossband, reif liðþófa og var með slitið liðband, en tímabilið á undan var hann valinn besti leikmaður ÍBV.

Hann var frá í rúmt ár en snéri aftur fyrir þetta tímabil og hefur spilað 9 leiki fyrir Eyjamenn á tímabilinu. Hann er þakklátur fyrir stuðninginn sem hann fékk frá ÍBV og liðsfélögum sínum.

„Ég er náttúrlega fyrst og fremst þakklátur að vera kominn til baka og hafa sigrast á þessum meiðslum. Eins og flestir vita og þeir sem hafa gengið í gegnum þetta vita að þetta tekur á og þetta er langur tími í burtu og mikil vinna að baki og upp og niður. Þetta var rúmt ár hjá mér og lenti svolítið illa í því en var alltaf staðráðinn í að koma til baka."

„Ég vissi að þetta tæki tíma og var þolinmóður. Ég er með frábæra liðsfélaga og þakka ÍBV fyrir stuðninginn frá þeim því ég hefði ekki komist í gegnum þetta einn. Hingað er ég kominn og er sáttur með allar mínútur sem ég fæ og það hlutverk sem ég er að spila. Ég reyni að sinna því eftir bestu getu en auðvitað vill maður alltaf spila meira og annað væri galið ef maður myndi ekki vilja spila meira."

„Ég er sáttur með það hlutverk sem ég sinni hjá liðinu og sem framarlega að liðinu gangi vel og vegni sem best þá er ég sáttur,"
sagði Jón við Fótbolta.net.

Samningur Jóns rennur út eftir þetta tímabil en hann mun setjast niður með stjórnarmönnum félagsins á næstu vikum og ræða framhaldið.

„Nei, erum að bara að setjast niður geri ég ráð fyrir á einhverjum tímapunkti. Ég veit ekki hvernig þau mál standa. Ég er Eyjamaður í húð og hár og hjarta mitt slær í Vestmannaeyjum, en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Það verður að koma í ljós en það er ekki í mínum höndum," sagði hann í lokin.
Jonni Inga: Það er bara að sýna hjarta og klára dæmið
Athugasemdir
banner
banner
banner