Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 07. febrúar 2021 23:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnór lenti upp á kant við Henrik Larsson
Enduðu á góðum nótum
Arnór Smárason.
Arnór Smárason.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Henrik Larsson.
Henrik Larsson.
Mynd: Getty Images
Arnór Smárason, nýr leikmaður Vals, var í viðtali í nýjasta þætti af Draumaliðinu, hlaðvarpi sem Jóhann Skúli Jónsson stjórnar.

Þar fer Arnór yfir feril sinn og kom til tals þegar hann spilaði undir stjórn sænsku goðsagnarinnar Henrik Larsson hjá Helsingborg í Svíþjóð.

„Hann var fenginn eftir tímabilið 2014 og átti að byrja í janúar 2015. Hann kallaði mig á fund og ég hélt við myndum fara yfir taktík og hvað hann vildi með mig. Ég átti tvö og hálft ár eftir af samningi þar og var í fínum málum. Nema þá að hann segir að ég þurfi að fara, ég sé á alltof háum launum, þeir séu búnir að losa sig við aðra leikmenn og ég sé einn af þeim sem þurfi að fara," sagði Arnór.

„Ég sagði við þá að við þyrftum að finna einhverja lausn. Þeir myndu borga mig út eða eitthvað, það var ekkert stress af minni hálfu. Það var ekkert í boði, ég þyrfti að fara og ef ég myndi ekki fara þá fengi ég ekkert að spila hjá þeim. Þetta var köld vatnsgusa í andlitið."

„Nýtt undirbúningstímabil byrja og þetta lúkkaði ekkert vel fyrir mig. Ég var settur í hægri bakvörðinn í einhverjum leik. Ég ákvað að halda kjafti og vinna mig inn í liðið. Ég ákvað að taka þann veginn á þetta. Það gekk ágætlega en það var sama staða. Fyrir lok gluggans í febrúar kom það upp að fara á láni til Torpedo Moskvu í Rússlandi. Það var fín lausn fyrir báða aðila."

„Svo kom ég til baka til Helsinborg um sumarið og það var sama staða. Ég tók sama pakka, hélt kjafti og reyndi að vinna mig inn í liðið. Ég reyndi að finna eitthvað annað félag og á lokadegi gluggans er ég með félag frá Skotlandi sem vildi fá mig. Ég er tilbúinn að fara, sé fram á það að sé ekkert að fara að breytast. En þá var Helsingborg nýbúið að selja Guðlaug Victor og fleiri, og á þessum lokadegi þá neitar Henke Larsson mér að fara."

„Við töluðum alltaf saman á hollensku. Ég hringdi beint í hann og það voru nokkur vel valin orð látin falla af minni hálfu. Ég lét hann aðeins heyra það. Ég sagði honum að ég yrði að fá að spila ef hann væri að neita mér þessu. Ég spilaði alla leiki eftir það og það gekk mjög vel. Við enduðum þetta á mjög góðum nótum ég og Henke, og urðum mjög góðir félagar. Ég held að hann hafi borið virðingu fyrir því hvernig ég tæklaði þetta."

Larsson er núna aðstoðarþjálfari hjá stórliði Barcelona. Arnór telur að Svíin sé góður í því hlutverki.

„Við fjölmiðla og fólk sem hann þekkir ekki, þá getur hann verið 'pain in the ass'. Sem þjálfari og þegar hann er kominn inn í hóp, þá fannst mér hann mjög góður. Hann var alltaf til í að hjálpa leikmönnum og var mikill peppari. Hann var allt önnur týpa þegar þú kynntist honum almennilega, heldur en út á við."

„Ég held að það sé frábær staður fyrir hann að vera á. Það er mikil virðing borin fyrir honum í fótboltaheiminum og það fær ekki hver sem er að vera aðstoðarþjálfari Barcelona," sagði Arnór.


Athugasemdir
banner
banner