Paul Merson segir að Roman Abramovich væri löngu búinn að reka Graham Potter ef Chelsea væri enn í hans eigu. Potter hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann tók við af Thomas Tuchel í september.
Chelsea hefur aðeins unnið tvo af tólf leikjum á árinu 2023 og markaþurrð hefur verið stórt vandamál. Liðið hefur bara skorað sjö mörk í sautján leikjum síðan í byrjun nóvember.
Liðið situr í 10. sæti í ensku úrvalsdeildinni og er ellefu stigum frá Meistaradeildarsætunum.
„Ef Roman Abramovich væri enn hjá félaginu þá væri Graham Potter orðinn fjarlægð minning, það þarf engan Einstein til að sjá það," segir Merson.
Abramovich var þekktur fyrir að hika ekki við að láta stjóra fara en hann neyddist til að selja félagið eftir innrás Rússlands í Úkraínu.
Merson telur að stærsta vandamálið á Stamford Bridge sé of stór leikmannahópur Chelsea.
„Það eru of margir leikmenn hjá Chelsea, mér er sama hver er stjórinn, leikmennirnir eru of margir. Potter hefur ekki orðið slæmur stjóri á einni nóttu, við erum í mars og hann veit ekki hvernig besta liðið hans er. Það er áhyggjuefni. Enginn getur giskað á byrjunarliðið gegn Dortmund í kvöld. Það er ómögulegt."
Dortmund vann fyrri leikinn gegn Chelsea 1-0 en liðin mætast í kvöld á Stamford Bridge klukkan 20.
Athugasemdir