
Það hafa orðið nokkuð stórar breytingar á leikmannahópi Gróttu fyrir komandi sumar í Lengjudeildinni.
Luke Rae og Kjartan Kári Halldórsson voru bestu leikmenn liðsins í fyrra en þeir munu báðir spila í Bestu deildinni í sumar.
Luke Rae og Kjartan Kári Halldórsson voru bestu leikmenn liðsins í fyrra en þeir munu báðir spila í Bestu deildinni í sumar.
Chris Brazell, þjálfari Gróttu, segist ekki vera svekktur að missa þessa öflugu leikmenn. Hann er ánægður fyrir þeirra hönd.
„Nei, ég er alls ekki svekktur. Ég er hæstánægður," sagði Brazell aðspurður að því hvort hann væri svekktur að missa þá er Fótbolti.net ræddi við hann í síðustu viku.
„Þetta er það sem við erum að reyna að gera, sem þjálfarar og sem félag. Við erum að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að spila. Við erum ekki heimskir. Þeir verða ekki í Gróttu að eilífu ef þeir spila vel. Sem félag höfum við reynt að hjálpa þeim að komast á réttan stað á réttum tíma."
„Þetta voru ekki bara Kjartan Kári og Luke. Benjamin (Friesen) fór til Þýskalands og er að spila á góðu stigi. Jón Ívan (Rivine) sem var í marki okkar í fyrra fór líka til Fylkis. Við erum stoltir af því. Þegar dyr lokast, þá opnast aðrar dyr. Vonandi eru leikmennirnir sem koma inn tilbúnir að stíga inn um dyrnar."
Brazell ætlar auðvitað að fylgjast með Kjartani Kára og Luke í Bestu deildinni í sumar.
„Ég hef mikla trú á þeim, þeir eru frábærir drengir. Ég horfi auðvitað á leikina hjá þeim. Ég mun styðja þá alla leið."
Grótta styrkti sig mikið í síðustu viku en í viðtalinu hér að ofan ræðir þjálfari Gróttumanna meira um það.
Athugasemdir