þri 07. mars 2023 10:28
Elvar Geir Magnússon
UEFA endurgreiðir stuðningsmönnum Liverpool
Frá Stade de France í París.
Frá Stade de France í París.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
UEFA mun endurgreiða þeim stuðningsmönnum Liverpool sem keyptu miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra, alls eru þetta um 3 milljónir punda sem UEFA mun þurfa að borga til baka, eða um 508 milljónir íslenskra króna.

Þetta er enn frekari staðfesting á því hvernig lélegt skipulag UEFA í kringum leikinn setti fólk í hættu og varð til þess að leikurinn gat ekki hafist á tilsettum tíma.

Mikill troðningur skapaðist fyrir utan Stade de France leikvanginn í París fyrir úrslitaleik Liverpool gegn Real Madrid. Fjöldi miðalausra einstaklinga voru á svæðinu og lögreglan beitti táragasi.

Í úttekt hefur komið fram að UEFA beri að mestu leyti ábyrgð á þeirri ringulreið sem skapaðist. UEFA hefur þegar beðist afsökunar og lofað að hrinda af stað áætlun til að svona endurtaki sig ekki.

Upphaflega kenndi UEFA stuðningsmönnum Liverpool um það ástand sem myndaðist en rannsókn hefur hinsvegar sannað að sökin sé fótboltasambands Evrópu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner