banner
   þri 07. júní 2022 12:37
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hjörvar hefði leyft fleiri leikmönnum í A-landsliðinu að fara í U21
Hjörvar á hliðarlínunni hjá HK fyrir nokkrum árum síðan.
Hjörvar á hliðarlínunni hjá HK fyrir nokkrum árum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Steinn var færður í U21 landsliðið
Bjarki Steinn var færður í U21 landsliðið
Mynd: Getty Images
Hjörvar Hafliðason, Dr. Football, ræddi um U21 árs landsliðið í hlaðvarpsþætti sínum í dag. Í gær jukust líkur U21 á sæti í umspili fyrir lokakeppni EM til muna þegar Grikkland tapaði fyrir Kýpur.

Skýring á stöðu mála hjá U21:
Þetta þarf að gerast svo U21 komist í umspil um sæti á EM

Staðan er þannig að Ísland þarf að vinna báða sína leiki (Hvíta-Rússland á morgun og Kýpur á laugardag) og treysta á að Grikkland tapi gegn Portúgal á útivelli.

Í kjölfar tíðindanna í gær var ákveðið að Bjarki Steinn Bjarkason færi úr A-landsliðinu í U21 landsliðið fyrir lokaleiki liðsins í undankeppninni.

Hjörvar hefði viljað sjá fleiri leikmenn fara yfir í U21. „Ég hefði leyft öllum að spila í U21. Ég sá hvað þetta gerði fyrir gullkynslóðina fyrir tíu árum síðan [2011], að prófa að vinna eitthvað - fara í gegnum umspilið gegn Skotum. Það var mjög umdeilt á sínum tíma en það bjó til heild," sagði Hjörvar. Ísland komst í fyrsta sinn á lokamót U21 liða árið 2010 og lék á lokamótinu í Danmörku 2011. Margir leikmenn í því liði urðu svo lykilmenn í A-landsliðinu.

Í A-landsliðinu eru átta leikmenn sem eru gjaldgengir í U21 liðið. Það eru þeir Andri Lucas Guðjohnsen, Atli Barkarson, Hákon Arnar Haraldsson, Ísak Bergmann Jóhannesson, Mikael Egill Ellertsson, Patrik Sigurður Gunnarsson, Valgeir Lunddal Friðriksson og Þórir Jóhann Helgason.

Þeir Þórir, Ísak og Andri byrjuðu leik A-landsliðsins gegn Albaníu í gær og þeir Hákon og Mikael komu inná sem varamenn.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var sérstaklega spurður út í Atla og Bjarka Stein á fréttamannafundi í gær, hvort möguleiki væri á því að þeir yrðu færðir í U21. A-landsliðið á fyrir höndum vináttuleik gegn San Marínó á fimmtuag og leik gegn Ísrael í Þjóðadeildinni á mánudag.

„Já, það kemur til greina. Helst ekki með Atla Barkar því Davíð Kristján er búinn að spila mikið. Þetta eru fyrstu alvöru leikir hans og Höddi er ekki að fara [til San Marínó]. Við þurfum að hafa vinstri bakvörð með okkur. Það kemur til greina, ég ætla að ræða við Davíð Snorra og Jóa Kalla í kvöld. Við þurfum að sjá hvað er best fyrir leikmennina," sagði Arnar í gær. Niðurstaðan var að Bjarki fór í U21 landsliðið eins og fyrr segir.

Atli lék með U21 í síðustu viku en var kallaður inn í A-landsliðið á laugardag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner