Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
   sun 07. júlí 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Copa America: Rodriguez með bestu frammistöðu mótsins - Úrúgvæ vann Brasilíu í vítakeppni
James Rodriguez er að eiga sturlað mót
James Rodriguez er að eiga sturlað mót
Mynd: Getty Images
Rodriguez er með fimm stoðsendingar og eitt mark
Rodriguez er með fimm stoðsendingar og eitt mark
Mynd: Getty Images
Nahitan Nandez fékk að líta rauða spjaldið
Nahitan Nandez fékk að líta rauða spjaldið
Mynd: Getty Images
Douglas Luiz ætlaði að vera eitursvalur í vítakeppninni. Hann starði í augu markvarðar Úrúgvæ í hálfa mínútu áður en hann setti boltann í stöng
Douglas Luiz ætlaði að vera eitursvalur í vítakeppninni. Hann starði í augu markvarðar Úrúgvæ í hálfa mínútu áður en hann setti boltann í stöng
Mynd: Getty Images
Manuel Ugarte fagnar sigurvítinu
Manuel Ugarte fagnar sigurvítinu
Mynd: Getty Images
Úrúgvæ og Kólumbía komust í undanúrslit Copa America í nótt. James Rodriguez átti bestu frammistöðu mótsins er hann kom að þremur mörkum í fyrri hálfleik í 5-0 stórsigri Kólumbíu á Panama á meðan Úrúgvæ vann Brasilíu eftir vítakeppni.

Mótið hefur verið hin mesta skemmtun fyrir áhugamenn um fótbolta.

Hiti, blóðug barátta og stórkostleg mörk. Kólumbíumenn hafa verið skemmtilegastir til þessa. James Rodriguez hefur verið að stjórna umferðinni í 'tíunni'.

Hann átti hornspyrnuna sem Jhon Cordoba stangaði í netið á 8. mínútu. Fjórða stoðsending hans á mótinu.

Sjö mínútum síðar fengu Kólumbíumenn vítaspyrnu er Orlando Mosquera, markvörður Panama, braut á Jhon Arias í teignum. Mosquera gerði VAR-merkið fræga og vildi meina að VAR myndi sanna sakleysi hans, en það kom í bakið á honum því hann braut á Arias og víti dæmt.

Rodriguez skoraði af punktinum. Fyrsta mark hans á mótinu. Panama var nálægt því að komast aftur inn í leikinn. Roderick Miller átti skalla í stöng sem fór síðan að Camilo Vargas í markinu, en hann náði að blaka boltanum út í teiginn.

Undir lok hálfleiksins gerði Luis Díaz þriðja mark Kólumbíu eftir frábæra sendingu Rodriguez inn fyrir. Fimmta stoðsending Rodriguez. Þetta var eins og að fara í tímavél til ársins 2014 er Rodriguez sundurspilaði öll lið á HM í Brasilíu, nema þá skoraði hann mörkin og núna er hann að mata liðsfélaga sína.

Þá varð hann fyrir leikmaðurinn í sögunni til að koma að þremur mörkum í fyrri hálfleik í keppninni.

Richard Rios gerði fjórða markið á 70. mínútu. Það var reyndar hið furðulegasta. Brotið var á Kólumbíumanni í teignum og var dómarinn að flauta vítaspyrnu en þá kom Rios á ferðinni og hamraði boltanum í netið. Markið stóð þó margir leikmenn væru nánast hættir að spila.

Miguel Borja rak síðasta naglann í kistu Panama undir lok leiks með marki úr vítaspyrnu. Kólumbía örugglega áfram í undanúrslit.

Úrúgvæ áfram eftir vítakeppni í Las Vegas

Úrúgvæ er komið áfram í undanúrslit eftir að hafa unnið Brasilíu í vítakeppni í Las Vegas í Nevada-ríki.

Sá leikur var stál í stál og aðeins tvö dauðafæri í fyrri hálfleiknum en Darwin Nunez gat komið Úrúgvæ yfir á 34. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri vængnum. Það er eins og Nunez hafi lokað augunum áður en boltinn kom að honum því hann endaði á að skalla hann með öxlinni og yfir markið.

Strax í næstu sókn fékk Raphinha dauðafæri hinum megin á vellinum. Hann komst einn í gegn á móti Sergio Rochet í markinu, en Úrúgvæinn varði frábærlega.

Fantaskapurinn var yfirgengilegur en menn voru svosem ekkert að kvarta yfir því.

Dómarinn leyfði leiknum að fljóta ágætlega svona miðað við kringumstæður, en hann leit þó ekki framhjá því þegar Nahitan Nandez fór í ljóta tæklingu á Rodrygo sem var kominn á sprettinn.

Nandez fór með takkana í ökklann á Rodrygo. Dómarinn gaf honum í fyrstu gula spjaldið en breytti ákvörðun sinni eftir að hafa skoðað atvikið með hjálp VAR. Rauða spjaldið fór á loft og Úrúgvæ því manni færri síðustu tuttugu mínúturnar.

Þar sem það er engin framlenging og farið beint í vítakeppni reyndu liðin eins og þau gátu að finna sigurmark, en það kom ekki og þurfti því að knýja fram sigurvegara í vítakeppninni.

Dorival Junior, þjálfari Brasilíu, undirbjó sig vel fyrir vítakeppnina með því að gera fimm skiptingar á síðustu tíu mínútum leiksins, en þeir Douglas Luiz, Savio, Gabriel Martinelli, Evanilson og Andreas Pereira komu allir inn á.

Úrúgvæ vildi eðlilega ekki fara í vítakeppni enda hefur engin þjóð tapað vítakeppni oftar í Copa America en Úrúgvæ eða sex sinnum á meðan Brasilía hefur unnið fimm vítakeppnir, oftast allra. Í nótt tókst þeim að aflétta þessari bölvun.

Rétt fyrir vítakeppnina fóru leikmenn beggja lið að rífast og þurftu dómararnir að aðskilja leikmenn áður en hægt var að hefja leik að nýju.

Vítakeppnin var áhugaverð með meiru. Rochet varði frá Eder Militao og þá skaut Douglas Luiz í stöng eftir að hafa starað í augun á Rochet í hálfa mínútu áður en hann klúðraði vítinu. Hugarleikur sem gekk ekki upp.

Alisson tókst að verja víti Jose Maria Gimenez en tókst ekki að verja frá Manuel Ugarte sem skaut Úrúgvæ í undanúrslit en þar mætir það Kólumbíu.

Vítakeppnin:
1-0 Federico Valverde
1-0 Rochet ver frá Militao
2-0 Rodrigo Bentancur
2-1 Andreas Pereira
3-1 Giorgian de Arrascaeta
3-1 Douglas Luiz skýtur í stöng
3-1 Alisson ver frá Jose Maria Gimenez
3-2 Gabriel Martinelli
4-2 Manuel Ugarte

Úrslit og markaskorarar:

Úrúgvæ 0 - 0 Brasilía (4-2 eftir vítakeppni)
Rautt spjald: Nahitan Nandez, Uruguay ('74)

Kólumbía 5 - 0 Panama
1-0 Jhon Cordoba ('8)
2-0 James Rodriguez ('15, víti )
3-0 Luis Díaz ('42 )
4-0 Richard Rios ('70 )
5-0 Miguel Borja ('90 )
Athugasemdir
banner
banner