fös 07. ágúst 2020 16:03
Magnús Már Einarsson
Formaður mótanefndar: Metum næstu daga hvar við stöndum
Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar KSÍ.
Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar KSÍ.
Mynd: Twitter - Stjarnan
Úr leik í Pepsi Max-deild kvenna.
Úr leik í Pepsi Max-deild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Þetta eru tíðindi dagsins og við vinnum með þau. Við skoðum hvaða leiðir eru færir og vonandi getur knattspyrnuhreyfingin lagt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við útbreiðslu á þessari veiru. Það er einn af lyklunum til að við komust eitthvað áfram í fótboltanum," sagði Valgeir Sigurðsson, formaður mótanefndar KSÍ,

Heilbrigðisráðuneytið hafnaði í dag ósk KSÍ um undanþágu til að láta knattspyrnuleiki fara fram á næstunni og hefur öllum leikjum á Íslandsmótinu verið frestað til 13. ágúst að minnsta kosti.

„Við funduðum í kringum hádegið og erum að meta stöðuna. Okkar beiðni var hafnað og því frestuðum við því öllum mótum í meistara, öðrum og þriðja flokki til 13. ágúst. Miðað við fréttir frá Almannavörnum og sóttvarnalækni þá er staðan okkur ekkert sérstaklega í hag. Við þurfum að meta næstu daga hvar við stöndum og hvort það sé raunhæft að halda mótahaldinu áfram að sinni," sagði Valgeir.

KSÍ hefur gefið sér tíma til 1. desember til að klára Íslandsmótið og Valgeir segir að framhaldið skýrist á næstunni.

„Við eigum ennþá tíma. Næstu dagar og næstu vikur munu skýra þetta frekar. Við tókum þessa ákvörðun í dag í samræmi við tilmæli sóttvarnaryfirvalda að fresta til og með 13. ágúst. Mögulega koma fram einhverjar nýjar upplýsingar eða tilmæli í næstu viku og við munum að sjálfsögðu fylgjast með því og bregðast við í framhaldinu. Staðan er óheppileg og á vissan hátt óljós en þannig er heimurinn í dag," sagði Valgeir.

„Við munum klárlega ekki spila fótbolta meðan það er ekki heimilað. Við erum komin mjög langt inn í sumarið og höfum leikið frekar fáa leiki í öllum deildum. Vandinn hefur safnast upp og við þurfum að meta á næstunni hvort það sé raunhæft að halda áfram. Núna er mikilvægt að við náum árangri í baráttunni við þessa veiru og vonandi getum við öll lagst á eitt í því. Það er stóra málið."

KSÍ sendi beiðni um undanþágu frá nándartakmörkunum og sótthreinsun búnaðar í æfingum og keppni í knattspyrnu en beiðninni var hafnað. Hvað stóð í beiðninni?

„Það eru atriði sem byggja á því sem þýska og danska knattspyrnusambandið hafa unnið með í tengslum við þeirra leiki. Til viðbótar var stuðst við það sem UEFA hefur gefið út. Við erum að vinna upp úr þessum leiðbeiningum," sagði Valgeir.

„Þar er talað um að halda fjarlægð á varamannabekkjunum enda er samneytið mest þar. Ekki nota sameiginleg ílát utan leikvallarins og ýmis slík atriði sem að menn hafa unnið með annar staðar og hafa gefist vel," sagði Valgir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner