fös 07. ágúst 2020 20:30
Brynjar Ingi Erluson
Hólmbert með 8 mörk í 10 leikjum - „Sýnist einhver tilboð vera að detta inn"
Hólmbert Aron Friðjónsson
Hólmbert Aron Friðjónsson
Mynd: Jon Forberg
Mynd: Jon Forberg
Mynd: Jon Forberg
Hólmbert Aron Friðjónsson, framherji Álasunds í Noregi, hefur verið einn líflegasti leikmaðurinn í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann ræðir við Fótbolta.net um markaskorunina, ástandið í Noregi og áhuga frá erlendum liðum.

Íslenski framherjinn hefur skorað 8 mörk í fyrstu 10 leikjunum þrátt fyrir brösulegt gengi liðsins á tímabilinu. Álasund er í neðsta sæti deildarinnar og ljóst að tímabilið gæti orðið ansi langt hjá nýliðunum.

Álasund var yfirburðalið í norsku B-deildinni á síðasta ári en það hefur gengið illa að fylgja því eftir í deild þeirra bestu.

„Gengið hefur verið mjög lélegt satt að segja. höfum ekki náð að fylgja eftir góða genginu í fyrra og varnarleikurinn hefur verið að svíkja okkur. Höfum lent í miklum meiðslum hjá lykilmönnum sem eru að týnast inn smátt og smátt," sagði Hólmbert við Fótbolta.net.

„Markmiðið okkar núna er að reyna að snúa þessu gengi við allir saman og reyna að ná í einhver stig. Við viljum ekki falla og það er númer 1,2 og 3."

Hólmbert hefur skorað mikilvæg mörk í deildinni en hann skoraði tvö mörk í 2-2 jafntefli gegn Vålerenga og gerði þá þrennu í 3-2 sigrinum á Start. Hólmbert er þriðji markahæsti maður deildarinnar ásamt þremur öðrum og er aðeins tveimur mörkum á eftir Kasper Junker, framherja Bodö/Glimt, sem er markahæstur í deildinni.

„Ég hef mín persónulegu markmið já sem ég hendi ekkert alltaf út í cosmos-inn ef ég má sletta. Ég er ekki búinn að ná þeim en hef náð að herja virkilega að þeim með þessari byrjun hjá mér, er mjög ánægður með það."

„Eigum að lifa sóttkvíarlífi"

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif um allan heim og var fótboltinn settur í biðstöðu. Hann segir að málin hafi verið tækluð nokkuð vel í norsku deildinni.

„Covid hefur verið vel tæklað allavega hér í Álasund ekki mikið um þetta hér sem er jákvætt, meira í Osló. Allir leikmenn í Eliteserien settir í “sóttkví” eða eigum að lifa svona sóttkvíar lífi sem er stundum þungt en það hefur verið minna núna upp á síðkastið."

„Álagið hjá okkur hefur verið mjög mikið til að byrja með. Spilum þrisvar sinnum í viku nánast alltaf og hefur verið lítill tími að æfa aðallega bara recovery og ná sér í gang fyrir næsta leik."

„Núna er aðeins að hægjast á þessu og fara að koma inn 7 dagar á milli leikja sem er bara gott fyrir okkur. Náum að drilla okkur aðeins betur og fara yfir það sem hefur ekki gengið nægilega vel."
sagði hann ennfremur.

Áhugi frá Ítalíu og Hollandi

Frammistaða Hólmberts hefur vakið verðskuldaða athygli en það er mikill áhugi á honum frá Ítalíu. Klúbbar í tveimur efstu deildunum vilja fá hann og þá er einnig mikill áhugi frá Hollandi.

„Það er alltaf gaman að heyra af áhuga en fótboltinn getur verið helvíti flókinn og það er stundum langt á milli áhuga og tilboðs en ég hef heyrt góða hluti og sýnist fara að detta inn einhver tilboð sem væri gaman að skoða."

Samningur Hólmberts við Álasund rennur út um áramótin en hann hefur rætt við félagið um stöðuna. Ljóst er að félagið vill ekki missa hann á frjálsri sölu.

„Ég hef rætt mikið við Álasund um minn samning og að hann sé að renna út. Ég skil þeirra stöðu mjög vel að vilja ekki að ég fari frítt og við erum í góðum samskiptum og erum að ræða okkar á milli."

Landsliðssæti raunhæfur möguleiki

Hólmbert á að baki 2 landsleiki og 1 mark er Íslands spilaði tvo vináttuleiki við Kanada fyrir fimm árum. Níu landsleiki eru framundan hjá íslenska landsliðinu næstu mánuði og lætur hann sig dreyma um kallið.

„Landsliðssæti hefur alltaf verið draumur hjá mér og það gerist ef það gerist! Ég reyni að standa mig vel og vonandi kemur það einn daginn en ég held áfram að dreyma," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner