Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 08. janúar 2023 22:11
Elvar Geir Magnússon
Hvað gerist ef Kórdrengir taka ekki þátt í sumar?
Lengjudeildin
Það eru mörg spurningamerki hjá Kórdrengjum.
Það eru mörg spurningamerki hjá Kórdrengjum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr leik hjá Ægi Þorlákshöfn síðasta sumar.
Úr leik hjá Ægi Þorlákshöfn síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Enn virðist vera óvissa um hvort Kórdrengir verði með í Lengjudeild karla í sumar. Félagið er án þjálfara og hefur enn ekki hafið æfingar fyrir komandi tímabil, samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net.

Þá er liðið án heimavallar en í leikjaniðurröðun KSÍ er skráð 'Leikvöllur óákveðinn' við alla heimaleiki liðsins.

Davíð Smári Lamude, sem hefur að mörgu leyti verið potturinn og pannan hjá Kórdrengjum frá stofnun félagsins, var í vetur ráðinn þjálfari Vestra og öflugir leikmenn eru komnir annað eða að æfa með öðrum liðum.

Logi Már Hermannsson, formaður Kórdrengja, sagði í byrjun nóvember að Kórdrengir yrðu með í sumar en seinna í þessum mánuði ættu málin endanlega að skýrast, félög í deildinni þurfa að skila inn upplýsingum fyrir leyfiskerfi KSÍ eigi síðar en 15. janúar.

Fer Ægir upp eða KV?
Sama hvað gerist þá er óvissan mikil. Ef Kórdrengir verða ekki með í sumar er spurning hvaða lið tæki sætið í Lengjudeildinni í þeirra stað. Miðað við reglugerð KSÍ er ekki ljóst hvaða lið það yrði.

Í reglugerðinni segir að almenna reglan sé sú að liðið í 3. sæti næstu deildar fyrir neðan flytjist upp um deild ef lið dregur sig úr eða er vísað úr keppni. Það yrði þá Ægir Þorlákshöfn sem hafnaði í þriðja sæti 2. deildar í fyrra.

„Ef slíkt er afleiðing þess að þátttökuleyfi hefur ekki verið veitt eða dregið til baka samkvæmt leyfiskerfi KSÍ, skal þó farið eftir næstu grein," segir svo í reglugerðinni og vísað í grein 23.1.12 þar sem stendur:

„Ef sæti losnar í 1. deild vegna þess að umsókn um þátttökuleyfi var hafnað skal liðið sem féll úr deildinni árið áður og var í næstneðsta sæti, taka lausa sætið ef það uppfyllir skilyrði." - KV, Knattspyrnufélag Vesturbæjar, hafnaði í næstneðsta sæti Lengjudeildarinnar.

Það má semsagt skilja þetta þannig að ef Kórdrengir draga sig úr keppni þá er Ægir fyrsti kostur í að taka sætið, en ef Kórdrengir falla hinsvegar á leyfiskerfinu þá er KV fyrsti kostur. Áhugaverð staða og Kórdrengir gætu þá í raun haft það í sínum höndum hvort liðið yrði í Lengjudeildinni ef þeir verða ekki með.

Fótbolti.net mun fara nánar í þetta mál á morgun en eins og áður segir hefur ekkert heyrst frá Kórdrengjum sjálfum um að þeir gætu dregið sig úr keppni, en morgunljóst er að ekki er öruggt með þátttöku þeirra.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner