þri 08. júní 2021 00:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Karólína meistari í tveimur löndum - „Spes að dekka hvor aðra"
Karólína með móður sinni eftir leik í gær.
Karólína með móður sinni eftir leik í gær.
Mynd: Úr einkasafni
Eftir undanúrslitin í Meistaradeildinni.
Eftir undanúrslitin í Meistaradeildinni.
Mynd: Getty Images
Karólína og Alexandra.
Karólína og Alexandra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta er fyrsti deildartitill Bayern í fimm ár.
Þetta er fyrsti deildartitill Bayern í fimm ár.
Mynd: Getty Images
Það er landsliðsverkefni framundan.
Það er landsliðsverkefni framundan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta hálfa ár er búið að vera rosalega lærdómsríkt, rosalega erfitt en líka rosalega skemmtilegt," segir landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem varð þýskur meistari í fótbolta í gær.

Hún flutti að heiman frá Íslandi fyrir um hálfu ári síðan eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Breiðablik. Eftir að hafa orðið Íslandsmeistari er hún núna búin að upplifa sína fyrstu mánuði í atvinnumennsku þar sem hún komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar og varð þýskur meistari með Bayern.

„Það var mögnuð tilfinning að taka þetta í gær eftir alla vinnuna sem liðið var búið að leggja á sig. Það var vel fagnað, Þjóðverjarnir kunna þetta alveg," segir Karólína í samtali við Fótbolta.net.

Bayern komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar en tapaði þar gegn Chelsea eftir að hafa unnið fyrri leikinn á heimavelli. Var ekki erfitt að gíra sig í síðustu leikina heima fyrir eftir það súra tap?

„Það var voða þungt yfir liðinu daginn eftir tapið í London en það hristu það allir af sér daginn eftir. Það var sterkt að ná góðum úrslitum í næsta leik."

Besta vinkonan í hinu liðinu
Karólína kom inn á af bekknum í gær þegar Bayern vann 3-0 sigur á Frankfurt í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar. Í hinu liðinu var besta vinkona hennar, Alexandra Jóhannsdóttir.

„Það var gaman en skrítið," segir Karólína en þær eru vanalega í sama liðinu. „Okkur fannst smá spes að vera allt í einu að dekka hvor aðra en við verðum víst að venjast þessu bara."

Eftir leikinn voru skemmtilegar myndir í sjónvarpinu þar sem Alexandra faðmaði Karólína. Hvað fór þeirra á milli eftir leik?

„Maður var ekki að búast við að vera þarna í beinni en satt að segja man ég ekki hvað hún var að segja. Maður var bara einhver tilfinningahrúga þarna. Þetta hefur verið erfitt tímabil hjá okkur Alex, en við erum alltaf til staðar fyrir hvor aðra."

Mamma í stúkunni
Móðir Karólínu hefur verið hjá henni í Þýskalandi síðustu vikur og var í stúkunni þegar titillinn fór á loft.

„Því miður gat öll fjölskyldan ekki komið. Mamma kom til mín í maí og við höfum átt yndislegan tíma saman. Hápunkturinn var að knúsa hana eftir leik. Hún er algjör klettur sem er alltaf til staðar og ég er óendanlega þakklát fyrir hana," segir landsliðkonan efnilega.

Ætlar sér fleiri mínútur á næsta tímabili
Karólína, sem er 19 ára, fékk félagaskipti til Bayern í janúar en hún kom meidd til félagsins. Hún spilaði alls sex leiki í þýsku úrvalsdeildinni og þrjá leiki í Meistaradeildinni á tímabilinu.

Aðspurð um hlutverk sitt í liðinu og framhaldið segir hún:

„Ég kom meidd til félagsins og þurfti svolítið að vinna mig inn í allt eftir að ég byrjaði loksins að æfa með liðinu. Auðvitað vil maður alltaf spila allar mínútur en ég get ekki kvartað mikið yfir að hafa verið alltaf í hóp og koma oftast inn á í einu besta félagsliði heims."

„Ég trúi því að ég geti unnið mér inn fleiri mínútur á næsta tímabili og það er bara undir mér komið; svo það er markmiðið."



Landsliðsverkefni á næsta leiti
Karólína er í A-landsliðshópnum sem spilar tvo vináttulandsleiki við Írland á næstunni. Leikirnir eru 11. og 15. júní og geta áhorfendur mætt á Laugardalsvöll.

„Það eru forréttindi að spila fyrir landsliðið. Það er alltaf frábært að hitta stelpurnar og enn skemmtilegra að verkefnið sé heima. Ég get ekki beðið eftir að spila á Íslandi og fyrir framan áhorfendur," segir Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, nýkrýndur Þýskalandsmeistari í fótbolta.

Hægt er að kaupa sér miða á leikina gegn Írland með því að smella hérna:

Sjá einnig:
Karólína í einu stærsta félagi veraldar: Lífið breyst mikið við nýja áskorun
Komu á sama tíma í Breiðablik og hafa verið límdar saman síðan



Athugasemdir
banner
banner