Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 08. september 2019 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Reja á 40 ára þjálfaraferil - Fór pirraður frá Íslandi
Icelandair
Edoardo Reja, þjálfari Albaníu, ræðir við Bobby Madden, dómara, eftir leik Albaníu og Íslands á Laugardalsvelli.
Edoardo Reja, þjálfari Albaníu, ræðir við Bobby Madden, dómara, eftir leik Albaníu og Íslands á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reja hefur meðal annars þjálfað Napoli og Lazio.
Reja hefur meðal annars þjálfað Napoli og Lazio.
Mynd: Getty Images
Ísland mætir Albaníu í undankeppni EM 2020 ytra á þriðjudagskvöld. Það verður gríðarlega mikilvægur leikur í þessari undankeppni.

Ef við lítum aðeins til mótherjans. Þar er við stýrið hinn 73 ára gamli Edoardo Reja. Hann er fæddur í Lucinico á Ítalíu þann 10. október 1945. Reja er gríðarlega reynslumikill. Hann á í heildina 40 ára þjálfaraferil að baki.

Hann byrjaði að þjálfa 1979 þegar hann tók við Molinella á Ítalíu. Hann þjálfaði í neðri deildunum á Ítalíu, en árið 1989 fékk hann stórt gigg þegar hann tók við Pescara í B-deildinni þar í landi. Hann átti eftir að stýra nokkrum liðum í B-deildinni. Þar á meðal Brescia, sem er nú í A-deild, um tíma og þar var hann með leikmann að nafni Andrea Pirlo á sínum snærum. Hann hjálpaði Pirlo að hefja sinn feril, en Pirlo átti eftir að verða einn allra besti miðjumaður í heimi.

Hann tók í fyrsta sinn við liði í A-deild árið 1998 er hann samþykkti að taka við Vicenza. Hann flakkaði um á milli A-deildar og B-deildar með því liði til 2001.

Eftir að hafa stýrt Vicenza, þá þjálfaði hann Genoa, Catania, Cagliari og Napoli. Hann var með Napoli frá 2005 til 2009.

Hans fyrsta starf utan Ítalíu var þegar hann tók við Hadjuk Split í Króatíu og var með það lið í um hálft ár. Hann sneri aftur til Ítalíu eftir það og tók við Lazio. Hann gerði fína hluti með Lazio frá 2010 til 2012, en hætti svo. Hann tók aftur við Lazio í janúar 2014 og hjálpaði liðinu að forðast fall þá leiktíð.

Hans síðasta starf áður en hann tók við landsliði Albaníu, var hjá Atalanta. Hann er því eins og gefur að skilja mikill reynslubolti úr ítalska fótboltanum.

Hann tók við albanska landsliðinu af Christian Panucci eftir fyrstu tvo leikina í undankeppninni. Síðan Reja tók við, þá hefur Albanía tapað gegn Íslandi (1-0) og Frakklandi (4-1), en unnið Moldóvu (2-0).

Hann taldi sig geta nýtt veikleika íslenska liðsins þegar hann kom hingað í júní og var hann fúll eftir leikinn. Hann sagði sigur Íslands óverðskuldaðan og vill hann væntanlega sjá sína leikmenn hefna fyrir tapið.
Athugasemdir
banner