Stuðningsmaður Leicester - Viðar Halldórsson
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.
Leicester er spáð sjöunda sæti.
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks, heldur með Leicester og hann svaraði nokkrum laufléttum spurningu.
Leicester er spáð sjöunda sæti.
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks, heldur með Leicester og hann svaraði nokkrum laufléttum spurningu.
Ég byrjaði að halda með Leicester af því að… Leicester var “litla” liðið sem spilaði með hjarta og sál við að reyna að berjast við klassísku stórveldin í enska boltanum. Leicester er á stundum eins og íslensku landsliðin á góðum degi, litla liðið með stóra hjartað, uppfullt af stemingu og samheldni. Hvernig er ekki hægt að halda með Leicester?!
Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil var framar vonum fram að Covid stoppinu. Liðið var að spila góðan fótbolta og ná úrslitum á sama tíma og sum stóru liðin voru að ströggla þannig að þetta leit allt saman virkilega vel út. En eftir hléið var liðið ekki svipur hjá sjón. Spilamennskan og andleysið í liðinu á þeim tíma var algert. Hjartað var farið og voru það virkileg vonbrigði að fylgjast með frammistöðu liðsins á lokasprettinum. En heilt yfir þá er fimmta sætið frábær árangur fyrir lið eins Leicester, sem ég hefði alltaf tekið fyrirfram. En miðað við hvernig liðið endaði síðasta tímabil þá er ég áhyggjufullur um hvort liðið hafi það sem þarf til að vera í efri hluta deildarinnar þetta tímabil, og sérstaklega þar sem liðið hefur ekki verið að gera spennandi hluti á leikmannamarkaðnum í sumar.
Hefur þú farið út til Englands að sjá liðið þitt spila? Já, ég hef margoft séð Leicester spila. Og þá sérstaklega þegar ég bjó í Leicester þegar ég var þar í námi á sínum tíma.
Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Jamie Vardy og Kasper Schmeichel. Það er frábært að eiga hetju eins og Vardy, með hans bakgrunn og hann er einhvern veginn svona leikmaður sem blómstar þegar mest á reynir. Hann er líka mjög mikilvægur í klefanum, að mér skilst og það er gaman að halda með honum. Schmeichel er svo frábær markvörður og einnig flottur karakter. Það hefur væntanlega ekki verið auðvelt fyrir hann að feta í fótspor pabba síns sem var - að mínu mati - besti markvörður allra tíma, umsvifsmikill og krefjandi. Það að Kasper sé á þessum stað sem hann er finnst mér því vera mikill árangur hjá honum. Báðir hafa þeir Vardy og Schmeichel einnig haldið tryggð við félagið sem er virðingarvert, því Leicester á fullt í fangi með að halda sínum bestu mönnum þegar stóru liðin fara á stúfana. Grasið er ekki alltaf grænna hinum megin, og ég kann því að meta tryggð þeirra félagana.
Leikmaður sem þið myndir vilja losna við? Ég hef aldrei verið hrifinn af Albrighton. Einnig blótaði ég Choudhury í sand og ösku þegar hann nánast gaf Man Utd dýrmætt mark í úrslitaleiknum um Meistaradeildarsætið á síðustu leiktíð - og er ekki enn búinn að fyrirgefa honum.
Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Dennis Praet mun springa út hjá okkur í vetur og svo verður gaman að fylgjast með hinum unga Luke Thomas.
Ef þú mættir velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Ég tel að öflugir karakterar séu enn mikilvægari fyrir fótboltalið en jafnvel bestu leikmennirnir. Því myndi ég velja Jordan Henderson til að negla þetta saman og mynda hryggsúluna í liðinu með Schmeichel, Söyüncü og Vardy. Raunhæfari kostur væri þó að fá kannski einhvern eins og Dwight McNeil.
Ánægður með knattspyrnustjórann? Já. Rodgers er búinn að koma sterkur inní þetta. Mér finnst hann almennt flottur. En hann missti einhvern veginn tökin í Covid-hléinu en ég vona að hann hafi það sem þarf til að koma liðinu í fluggírinn að nýju.
Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist ykkur og félaginu? Haustið 2014 þá fæddist Styrkár, yngsti sonur minn. Þá var Leicester að berjast á botni ensku deildarinnar. Við fjölskyldan ákváðum á þessum tíma að hann myndi halda með Leicester, og eldri bræðurnir hlógu í kampinn af hlutskipti þess yngsta. Um jólin var liðið í neðsta sæti í deildinni með 10 stig eftir 17 leiki og í apríl hafði liðið aðeins unnið fjóra leiki á tímabilinu. En þá hófst ævintýrið. Liðið vann leik eftir leík í apríl og maí og bjargaði sér frá falli á ævintýranlegan hátt, og er jafnan er talað um endurkomuna sem “The Great Escape”. Tímabilið á eftir varð Leicester City enskur meistari. Þeir eldri hlógu ekki mikið að okkur Styrkári þá. Mic drop!
Hvað fannst þér vera þess valdandi að Leicester mistókst að ná Meistaradeildarsæti á síðustu leiktíð? Liðið var að spila yfir væntingum og ná lengra en allir bjuggust við fram eftir mótinu og stemningin var með liðinu. Eftir hlé byrjar eiginlega nýtt mót. Mómentið var farið og þá komu veikleikar hópsins í ljós. En það eru örugglega nokkrir hlutir sem koma saman, eins og meiðsli og slíkt en ég hef einnig á tilfinninguni að það hafi eitthvað verið að bak við tjöldin. Það þarf allt að vera í lagi hjá liði eins og Leicester til að vera að berjast í hæstu hæðum í deildinni.
Í hvaða sæti mun Leicester enda á tímabilinu? Ég hef alltaf sagt að það er góður árangur fyrir lið eins og Leicester að enda í topp 10 í einni sterkustu deild í heimi. Eins og sakir standa þá væru vonbrigði að ná því ekki. Ég er hæfilega bjartsýnn fyrir þetta tímabil en spái mínum mönnum 7-8. sæti í deildinni. Ég get lifað með því.
Athugasemdir