„Þetta er búið að vera í vinnslu svolítið lengi, en þetta er bara frábær sigur í dag, fullkominn leikur. 7 leikir, þetta var aðeins of mikið en sem betur fer þá kom þetta í dag."
Lestu um leikinn: Fjölnir 2 - 0 Afturelding
Sagði Dagur Ingi Axelsson leikmaður Fjölnis eftir að liðið hans vann 2-0 sigur á Aftureldingu. Fjölnismenn voru ekki búnir að vinna 7 leiki í röð fyrir þennan leik. Þeir eru þó ennþá í harðri baráttu um að fara upp um deild og því mjög mikilvægt að hafa unnið í dag á móti liði sem þeir eru að keppa við um þessi sæti.
„Jú mjög sætt, við vorum bara mjög góðir, mér fannst við gera alla hlutina bara mjög vel. Við vorum að klára færin okkar vel og svo vorum við bara að skapa fullt, fullt af færum. Þetta hefði alveg getað endað þrjú, fjögur núll. En ég er bara mjög sáttur."
Fjölnir á Keflavík í lokaleiknum og ef úrslit falla með þeim geta þeir ennþá unnið deildina og farið beint upp um deild.
„Eins og Úlli (Úlfur Arnar Jökulsson) segir alltaf, það eru 22 leikir í þessu móti ekki 21. Þannig við ætlum bara svo sannarlega að vinna síðasta leikinn og sjáum hvar við stöndum eftir hann."
Fjölnismenn fengu víti í lok fyrri hálfleiks þar sem Dagur var felldur inn í teig. Þessi dómur var mjög umdeildur en gestirnir voru ekki sáttir.
„Í mínum bókum já (var þetta víti). Þeir voru eitthvað ósáttir, vildu meina að hann hafi verið kominn fyrir framan mig. En ég vil nú meina að ég snerti boltan fyrst og er að komast í fínt skotfæri. Mér fannst, í mínum bókum var þetta víti."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.