sun 08. nóvember 2020 15:40
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho: Harry Kane spilaði eins og sexa
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho var kátur eftir nauman sigur Tottenham gegn nýliðum West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Við erum mjög ánægðir að vera komnir á toppinn og sérstaklega að vera komnir með þrjá sigra í röð. Þetta var mjög erfiður leikur fyrir okkur og náðum í mikilvæg stig. Það er ekki alltaf hægt að spila glimrandi sóknarbolta og skora mikið af mörkum, sigrarnir í dag og gegn Burnley sýna það," sagði Mourinho.

„Við reyndum eins og við gátum að skora en það var erfitt gegn skipulögðum andstæðingum. Við erum ánægðir með að halda hreinu, það er mikilvægt í þessari deild."

Harry Kane gerði eina mark leiksins á 89. mínútu og hrósaði Mourinho honum í hástert.

„Ég þarf ekki að tala um Harry því hann gerir það sjálfur á vellinum. Þessi náungi gerir mikið meira en að skora bara mörk. Síðustu fimm mínúturnar í dag spilaði hann eins og sexa og var að vinna bolta fyrir framan varnarlínuna. Hann er einstakur leikmaður.

„Við höfum tapað stigum á heimavelli en bætum upp fyrir það með 12 stigum af 12 mögulegum á útivelli."

Athugasemdir
banner
banner
banner