Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   þri 09. janúar 2024 16:02
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Eggert Aron til Elfsborg (Staðfest)
Mynd: Elfsborg
Mynd: Elfsborg
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Elfsborg og Stjarnan tilkynntu rétt í þessu um félagaskipti leikmannsins en sænska félagið er að kaupa Eggert frá Stjörnunni. Eggert er nítján ára miðjumaður sem sterklega hefur verið orðaður við atvinnumennsku erlendis síðasta hálfa árið. Hann átti möguleika á því að fara erlendis í haust en kaus frekar að klára tímabilið á Íslandi.

Hann átti frábært tímabil í Bestu deildinni á síðasta tímabili og var valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins. Hann var þá algör lykilmaður í U19 landsliðinu sem lék á lokamóti EM í fyrra. Í næstu viku gæti hann svo spilað sinn fyrsta A-landsleik því hann er í landsliðshópnum fyrir komandi vináttuleiki gegn Gvatemala og Hondúras.

Elfsborg kaupir Eggert og ef tikkað verður í flest boxin í kaupsamningnum þá verður Eggert nálægt því að verða dýrasti leikmaður sem seldur hefur verið frá Íslandi.

Hann skrifar undir samning sem gildir fram á sumarið 2028. Eggert verður tvítugur í febrúar.

„Ómetanlegt fyrir hvert félag að eiga slíka liðsmenn"
„Það hafa verið forréttindi að fá að fylgjast með Eggerti þróast úr efnilegum leikmanni yfir í að vera besti leikmaður deildarinnar og sjá hvernig hann hefur eflst við hverja raun. Eins og allir vita þá hefur áhuginn á honum verið gríðarlegur í umtalsverðan tíma en hann hefur allan þann tíma verið með fullan fókus á því að gera eins vel fyrir sitt félag og hefur alls ekki verið að flýta sér sem hefur í raun og veru aukið á þann mikla áhuga sem var fyrir. Það er ómetanlegt fyrir hvert félag að eiga slíka liðsmenn og ég vil persónulega óska Eggerti alls hins besta í nýjum og spennandi kafla sem er að hefjast á hans ferli og er sannfærður um að hann mun standa sig vel á stóra sviðinu enda algerlega framúrskarandi leikmaður sem getur náð mjög langt á komandi árum."

„Fyrir hönd félagsins og Stjörnufólks almennt vil ég jafnframt þakka honum fyrir þær frábæru stundir sem við höfum skapað á undanförnum árum og veit að bláa hjartað í honum slær algerlega í takt við félagið og mun gera áfram. -Þangað til næst,"
segir Helgi Hrannarr Jónsson formaður mfl ráðs karla.

Eggert þakkar fyrir sig - „Erum í frábærum höndum"
„Við Stjörnumenn erum í frábærum höndum. Erum með besta þjálfara á landinu og hann mun leiða okkar frábæra hóp að okkar markmiðum. Ég vill sjálfur þakka Jökli fyrir traustið sem hann gaf mér ásamt því hvernig hann breytti minni sýn á fótbolta. Það verður erfitt fyrir mig að kveðja Stjörnuna vegna margra þátta en fyrst og fremst er það leikmannahópurinn okkar, það er einstakur hópur. Samspil ungra leikmanna og þeirra eldri. Ég held að flestir séu sammála mér að þessi hópur mun ná ansi langt saman. Fjölbreyttir karakterar sem einkennast af miklum metnaði og vináttu."

„Stuðningurinn ykkar hefur einnig reynst dýrmætur, Silfurskeiðin hefur farið gjörsamlega á kostum og allt þetta skiptir okkur sem spila leikinn svo miklu máli. Síðan ég spilaði minn fyrsta leik fyrir þremur árum hefur stuðningur ykkar verið magnaður, Í gegnum highs and lows. Við leikmenn fáum mikinn drifkraft við að sjá ykkur mæta uppi stúku og syngja okkar nöfn. Markmið okkar er að skemmta ykkur í hverjum einasta leik."

„Vegferðin góða. Góðir ungir leikmenn á færibandi. Allir þessir strákar sem hafa komið upp i gegnum yngri flokkana okkar eru duglegir og metnaðarfullir strakar. Strakar sem ég hef þekkt síðan ég flutti í Garðabæinn 6 ára. Stjarnan hefur gert frábærlega í yngri flokka þjálfun undanfarin ár og eru fleiri sterkir strákar á leiðinni upp á næstu árum."

„Ég vill þakka ykkur öllum fyrir þann stuðning sem þið hafið sýnt okkur, ég hlakka til að fylgjast með liðinu úr fjarska (ekki langt í burtu samt). Takk fyrir mig og gangi ykkur vel!"
sagði Eggert Aron í tilkynningu Stjörnunnar.



Eggert Aron - Ákvörðunin
Athugasemdir
banner
banner
banner