„Það er gott að við séum komnar áfram. Leikurinn hefði ekki þurft að fara í þessa átt, en ég er mjög ánægð að við hættum aldrei. Ég er mjög sátt," sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, eftir dramatískan 3-4 sigur gegn Stjörnunni í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Stjarnan 3 - 4 Breiðablik
Úrslitin réðust á ótrúlegum vítaspyrnudómi í framlengingunni. Vítaspyrna sem var engan veginn réttlætanleg.
„Ég er búin að sjá þetta aftur og ég sé ekki mikla snertingu. En ég er ekki dómarinn og tek ekki þessar ákvarðanir. Mér er alveg sama hvernig við vinnum leikinn og hvað við þurfum að gera. Hún dæmir víti og við skorum úr því, og klárum leikinn þannig."
Þetta var annars hörkuleikur, en Stjarnan sýndi mikinn karakter að koma til baka. Ásta skoraði mjög flott mark í fyrri hálfleiknum.
„Ég vissi nákvæmlega hvað ég var að reyna að gera og það heppnaðist. Það var mjög gaman að skora, ég hef ekki skorað lengi. Ég vissi að hann myndi svífa yfir Auði," sagði Ásta létt en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar ræðir hún um nýju stöðuna sína og byrjunina á tímabilinu almennt.
Athugasemdir