fim 09. febrúar 2023 14:25
Elvar Geir Magnússon
„Fólk á ekki að taka mark á því sem Carragher segir“
Dwight Yorke er vægast sagt ósammála Carragher.
Dwight Yorke er vægast sagt ósammála Carragher.
Mynd: Getty Images
Dwight Yorke, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að fólk eigi ekki að taka mikið mark á því sem sparkspekingurinn Jamie Carragher segir. Yorke segir að skoðanir Carragher sveiflist eins og vindáttin.

Carragher sagði á dögunum að Erling Haaland, sóknarmaður Manchester City, hefði valið rangt félag. Norski landsliðsmaðurinn hefur skorað 31 mark fyrir City á tímabilinu.

„Algjörlega fáránleg ummæli frá Jamie Carragher, gjörsamlega biluð. Allir hafa rétt á sinni skoðun en fólk ætti að taka hæfilega mikið mark á því sem Carragher segir," segir Yorke.

„Ef samherjar Haaland eru ekki að finna hlaupin hans og ná ekki að senda á hann er það eitthvað sem Pep Guardiola þarf að leysa. Það hefur ekkert með það að gera að Haaland hafi valið 'rangt lið'. Manchester City er besta lið deildarinnar og hefur verið það undanfarin ár. Hvaða lið hefði verið betra að velja?"

„Þetta er hans fyrsta tímabil og hann er enn að læra inn á leikmennina sem hann spilar með, og öfugt. Þegar hann raðaði inn mörkum töluðu allir um hversu góður hann væri hjá City, nú skorar hann ekki í einum leik og á að hafa valið rangt lið. Þvílíkt þvaður frá Carragher. Liðið þarf bara að vinna betur með hlaupin hjá Haaland."
Athugasemdir
banner
banner