Arsenal og Tottenham hafa áhuga á Kean - Man Utd sýndi Fermín López áhuga - Jota orðaður við Arsenal
   sun 09. febrúar 2025 21:21
Ívan Guðjón Baldursson
Emery: Þurfum að bæta okkur til að vera samkeppnishæfir
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Unai Emery var kátur eftir 2-1 sigur Aston Villa gegn Tottenham í fjórðu umferð enska bikarsins í dag.

Aston Villa er þar með búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum bikarsins í fyrsta sinn í langan tíma þar sem liðið dettur vanalega út í fjórðu umferð eða fyrr.

„Ég er mjög ánægður. Þetta var frábær leikur gegn sterkum andstæðingum og við spiluðum virkilega vel. Okkur tókst loksins að komast í fimmtu umferð bikarsins! Ég veit að þessi bikar er mikilvægur fyrir félagið og fyrir stuðningsmennina," sagði Emery eftir sigurinn.

„Við vorum sterkara liðið í dag og stigum varla feilskref. Strákarnir áttu allir góðan leik og ég er hamingjusamur. Jacob Ramsey var frábær í dag, hann skoraði og kom sér í góðar stöður. Hann er sífellt að bæta sig sem fótboltamaður og er að halda sér frá meiðslum. Við þurfum á heilbrigðum leikmönnum að halda á seinni hluta tímabilsins.

„Morgan Rogers er líka búinn að vera frábær, hann er með mikla einbeitingu og mikinn metnað og er orðinn mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur.

„Svo erum við komnir með Donyell Malen, Andres Garcia, Marco Asensio og Marcus Rashford sem við vonum til að passi vel inn í hópinn. Þeir geta vonandi hjálpað okkur á lokakaflanum."


Aston Villa er í harðri baráttu um Evrópusæti í ensku úrvalsdeildinni auk þess að vera búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Það eru ótrúlega erfiðir leikir framundan. Það verður mikið af krefjandi verkefnum og við þurfum að bæta okkur ef við viljum vera samkeppnishæfir á öllum vígstöðvum. Við erum að berjast í bikarnum, ensku deildinni og Meistaradeildinni. Það er gríðarlega mikil vinna framundan. Við viljum vera í topp 6 í úrvalsdeildinni."
Athugasemdir
banner
banner