Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 09. júlí 2020 09:48
Elvar Geir Magnússon
Fyrrum þjálfari Guendouzi: Er með vont hugarfar
Guendouzi er úti í kuldanum.
Guendouzi er úti í kuldanum.
Mynd: Getty Images
Framtíð franska miðjumannsins Matteo Guendouzi hjá Arsenal er í óvissu en hann er í frystikistunni hjá Mikel Arteta. Leikmaðurinn hefur ekki verið valinn í síðustu fimm leikjum og verið látinn æfa með varaliðinu.

Fréttir herma að Guendouzi hafi sagt æðstu mönnum Arsenal að hann vildi fara frá félaginu eftir að hann var skammaður fyrir að rífast við leikmenn Brighton í 2-1 tapi Arsenal í síðasta mánuði.

Bernard Casoni, fyrrum þjálfari Guendouzi hjá Lorient, segir að þessi 21 árs leikmaður muni aldrei ná eins langt og hann vill nema hann lagi hugarfar sitt.

„Vandamál Guendouzi er ekki líkamlegt eða getulegt. Hans vandamál er hugarfar hans, það er hvorki gott fyrir liðið né þjálfarann. Samband mitt við hann var ekki mjög gott," segir Casoni.

„Í bikarleik gegn Nice fékk hann gult spjald snemma leiks. Dómarinn sagði við mig í hálfleik að vara Guendouzi við því að hann fengi rautt við næsta brot. Hann breytti samt ekki hegðun sinni á vellinum og ég gat ekki annað en tekið hann af velli. Þegar ég gerði það þá neitaði hann að taka í höndina á mér."

„Hann tekur starf sitt alvarlega og það voru engin vandamál á æfingasvæðinu. Það er í eðli hans að vilja alltaf vinna. Stundum talar hann of mikið og ógætilega. Hæfileikarnir eru til staðar og hann getur orðið toppleikmaður en þá þarf hugarfarið að breytast."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner