Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 09. september 2020 18:56
Victor Pálsson
Pepsi Max-kvenna: Dramatískur sigur Vals á Selfossi - KR fór illa með ÍBV
Hlín skoraði tvö.
Hlín skoraði tvö.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stórlið Vals í Pepsi-Max deild var nálægt því að misstíga sig í toppbaráttunni í kvöld er liðið lék við Selfoss í 13. umferð sumarsins.

Valur var fyrir leikinn einu stigi á undan Breiðabliki á toppnum en það síðarnefnda átti leik til góða. Liðið spilar við Stjörnuna klukkan 19:15 í kvöld.

Valskonur byrjuðu leikinn vel á Selfossi og komust yfir eftir 12 mínútur þegar Hlín Eiríksdóttir gerði vel fyrir framan mark heimamanna og skoraði.

Forysta Vals entist lengi vel en á 73. mínútu þá jafnaði Selfoss metin - Tiffany McCarty skoraði þá mark úr vítaspyrnu.

Guðný Árnadóttir gerðist brotleg innan teigs og nýttu Selfyssingar sér það og jöfnuðu.

Hilmar Jökull Stefánsson sá um að lýsa leiknum í beinni textalýsingu á Fótbolti.net og segir að markið hafi komið þvert gegn gangi leiksins.

Það stefndi lengi vel í 1-1 jafntefli en á 91. mínútu í uppbótartíma skoraði Hlín sitt annað mark til að tryggja Val sigurinn. Elín Metta Jensen gerði vel upp að marki Selfyssinga og lagði boltann á Hlín sem skoraði.

Valur er nú með fjögurra stiga forskot á toppnum en Blikar eiga tvo leiki til góða og geta endurheimt toppsætið.

KR vann á sama tíma virkilega góðan sigur á ÍBV og var aðeins að vinna sinn þriðja leik í sumar. Liðið hefur þó aðeins spilað tíu leiki til þessa.

KR vann sannfærandi 3-0 heimasigur og nældi í þrjú mikilvæg stig. KR er þó enn á botninum með tíu stig eftir jafn marga leiki. ÍBV er í fimmta sætinu með 16 stig.

FH og Fylkir áttust þá við í Kaplakrika og þar fögnuðu FH-ingar sigri með þremur mörkum gegn einu.

FH var í fallsæti fyrir leikinn en lyfti sér upp í það áttunda með sigrinum. Fylkir er enn í þriðja sætinu með 19 stig eftir 12 leiki.

Selfoss 1 - 2 Valur
0-1 Hlín Eiríksdóttir ('12 )
1-1 Tiffany Janea MC Carty ('73 , víti)
1-2 Hlín Eiríksdóttir('91)
Lestu nánar um leikinn hér

KR 3 - 0 ÍBV
1-0 Ragna Sara Magnúsdóttir ('6 , sjálfsmark)
2-0 Katrín Ómarsdóttir ('17 )
3-0 Alma Mathiesen ('85 )
Lestu nánar um leikinn hér

FH 3 - 1 Fylkir
1-0 Phoenetia Maiya Lureen Browne ('26 )
2-0 Helena Ósk Hálfdánardóttir ('29 )
2-1 Bryndís Arna Níelsdóttir ('67 )
3-1 Andrea Mist Pálsdóttir ('72 , víti)
Lestu nánar um leikinn hér

Athugasemdir
banner