„Mér finnst við smá óheppnarað hafa ekki náð stigunum þremur í dag. En mér finnst að eftir síðasta leik hafi stelpurnar sýnt mér það sem ég vildi, gott svar, mikinn karakter, mikla baráttu og mikla orku sem þær settu í leikinn. Þannig að ég var mjög ánægður með frammistöðuna en eins og ég sagði, við erum óheppin að fá ekki þrjú stig," sagði Jonathan Glenn, þjálfari ÍBV, eftir markalaust jafntefli við Breiðablik í miklum baráttuleik við erfiðar aðstæður í Vestmannaeyjum í dag.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks var mjög ósáttur við vallaraðstæður og vildi flauta af leikinn eftir 8 mínútna leik. Glenn var ekki alveg á sama máli.
„Mér finnst við hafa spilað við verri aðstæður og auðvitað er það sama fyrir bæði lið. Ég meina, ég held að það sé ekki meira sem ég get bætt við það, en þetta er eins fyrir bæði lið."
Lestu um leikinn: ÍBV 0 - 0 Breiðablik
ÍBV fékk kjörið tækifæri til að taka stigin þrjú þegar þær fengu vítaspyrnu á 84. mínútu leiksins en Madison Elise Wolfbauer átti slaka spyrnu framhjá markinu. Glenn var svekktur að hafa ekki tekið sigur í dag.
„Já klárlega. En þú veist, þetta er fótbolti, svona hlutir gerast en við tökum bara það jákvæða og höldum áfram."
Eyjakonur fara norður á Akureyri og mæta Þór/KA á miðvikudaginn. Glenn á von á baráttuleik.
„Við vitum að þetta verður erfiður leikur. Ég horfði á síðasta leik og þær hafa þétt hlutina mikið. Þannig að við eigum von á bardaga og það verður áskorun," sagði Glenn að lokum.