Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 09. september 2022 14:12
Elvar Geir Magnússon
Segir mikil mistök að fresta leikjum - „Hefði verið fullkomið tækifæri til að heiðra drottninguna“
Leikmenn Manchester United og Real Sociedad í mínútuþögn í Evrópudeildinni í gær.
Leikmenn Manchester United og Real Sociedad í mínútuþögn í Evrópudeildinni í gær.
Mynd: Getty Images
Andy Dunn, íþróttastjóri Mirror, segir að enska úrvalsdeildin hafi gert mistök með því að fresta umferðinni sem átti að fara fram um helgina. Félög ensku deildarinnar ákváðu á fundi sínum að ekki yrði spilað af virðingu við Elísabetu Englandsdrottningu sem lést í gær, 96 ára að aldri.

Dunn var að fara að fjalla um stórleik Manchester City og Tottenham á morgun en segist væntanlega leita að einhverjum íþróttum í sjónvarpinu í staðinn.

„Kannski fer maður í golf, ég gæti fengið mér nokkra kalda eða farið út að borða með fjölskyldunni. Eins mikla virðingu og ég bar fyrir henni og harma dauða hennar þá verð ég ekki að syrgja drottninguna klukkan 17:30 á morgun," skrifar Dunn í skoðanapistli.

„Ef leikur City og Spurs hefði farið fram þá hefði ég hinsvegar sameinast tugum þúsunda í því að votta minningu hennar virðingu. Ég hefði hugsað um lífshlaup hennar meðan mínútuþögn stæði yfir. Það sama hefði verið gert á fullum leikvöngum vítt og breitt um landið."

Breska ríkisstjórnin setti ekki bann við að spilað yrði en setti hinsvegar ákveðna pressu þegar hún lét ákvörðunina í hendur ensku deildarinnar.

„Hefðu aðdáendur viljað að leikirnir færu fram? Hefðu leikmenn viljað það? Stjórarnir? Já, já og já," skrifar Dunn og nefnir einnig þau vandræði sem þetta skapar fyrir þá stuðningsmenn sem höfðu planað ferðir á leikina.

Það verður hægara sagt en gert að finna leikdaga til að koma frestuðu leikjunum fyrir, enda er HM í Katar í nóvember og desember. Stór hluti af leikjunum geta í fyrsta lagi farið fram um miðjan janúarmánuð.
Athugasemdir
banner
banner