Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   mán 09. september 2024 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Rodrygo vill spila í holunni fyrir aftan fremsta sóknarmann
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Brasilíski sóknarleikmaðurinn Rodrygo er lykilmaður bæði fyrir brasilíska landsliðið og Real Madrid þrátt fyrir gífurlega mikla samkeppni um sæti í byrjunarliðunum.

Rodrygo er skráður sem hægri kantmaður að upplagi en er sjaldan notaður í sinni náttúrulegu stöðu, hvorki hjá Real Madrid né með brasilíska landsliðinu. Hann er yfirleitt notaður á vinstri kanti eða sem fremsti sóknarmaður þó að hann kjósi sjálfur að spila í holunni fyrir aftan fremsta sóknarmann.

„Þetta kemur sér stundum illa fyrir mig að vera að skipta svona oft um stöðu. Ég er oft að fylla í eyðurnar í sóknarlínunni og það getur verið ruglandi að skipta svona oft um stöðu. Maður þarf að nota mismunandi eiginleika fyrir hverja stöðu," sagði Rodrygo eftir að hafa skorað eina mark leiksins í 1-0 sigri Brasilíu gegn Ekvador í undankeppni HM um helgina.

„Ég er fyrst og fremst mikill liðsmaður og ég set liðið alltaf framyfir sjálfan mig. Ég er tilbúinn til að spila hvar sem er á vellinum en uppáhalds staðan mín er fyrir aftan fremsta sóknarmann, þar sem ég fæ mikið frelsi til að athafna mig. Mér finnst sú staða á vellinum vera skemmtilegust og tel að hún henti mínum eiginleikum best."

Rodrygo hefur verið að spila sem fremsti sóknarmaður með brasilíska landsliðinu og segist vera spenntur fyrir næstu árum þar sem mikið af ungum og efnilegum brasilískum framherjum eru að koma upp. Það hefur verið vöntun á heimsklassa framherja í landsliðinu en Rodrygo hefur verið að leysa stöðuna vel af hólmi að undanförnu.

„Við erum með unga leikmenn sem geta stigið upp á næstu árum. Við erum með Joao Pedro sem getur tekið þessa stöðu og svo erum við með Endrick. Þeir eru tveir mjög ólíkir framherjar en ég hef mikla trú á að þeir geti gert stóra hluti með brasilíska landsliðinu."
Athugasemdir
banner
banner