„Við vorum mikið betri í fyrri hálfleik. Vorum skipulagðar og ákveðnar og áttum miklu fleiri færi. Vorum óheppnar að nýta þau ekki. Svo virkuðum við bara mjög þreyttar í seinni hálfleik, því miður,“ sagði Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, eftir 4-1 tap gegn KR í kaflaskiptum bikarleik.
Lestu um leikinn: KR 4 - 1 Tindastóll
Tindastólsliðið var frábært í fyrri hálfleik en átti erfiðara uppdráttar í þeim síðari. Bryndís nefndi þreytu þegar hún var spurð um ástæðurnar.
„Álag og þreyta? Ég veit það ekki alveg ekki,“ sagði fyrirliðinn sem stóð sjálf úti á velli á Símamótinu í allan dag þar sem hún þjálfar yngri flokka hjá félaginu sínu. Hún vildi þó ekki meina að það hefði setið í henni.
„Nei, nei. Við erum vanar að vinna og fara svo að spila. Þetta er enginn aumingjaskapur með það. Við spiluðum núna þrjá leiki á 8 dögum, stutt á milli og mikið álag. Bara eins og það er.“
Bryndísi fannst gaman að fá að spreyta sig gegn liði í efstu deild en Tindastóll er í toppbaráttu Lengjudeildarinnar og stefna liðsins er að komast upp um deild.
„Okkur finnst gaman að fá áskorun og spila við lið í efstu deild. Okkur dreymir um að fara þangað og það er gaman að sjá hvar þær eru staddar og hverju við þurfum að vinna í til að gera betur.“
Hægt er að horfa á allt viðtalið við fyrirliða Tindastóls í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir