Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 10. ágúst 2022 21:13
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: HK vann eftir að eini markvörður Vogamanna meiddist
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

HK 4 - 1 Þróttur V.
1-0 Bruno Soares ('28)
1-1 Magnús Andri Ólafsson ('42)
2-1 Hassan Jalloh ('70)
3-1 Ásgeir Marteinsson ('73)
4-1 Hassan Jalloh ('79)


Lestu um leikinn: HK 4 -  1 Þróttur V.

Mögnuðum leik var að ljúka í Kópavogi þar sem topplið HK rúllaði yfir Þrótt frá Vogum sem var með útispilandi leikmann í stöðu markvarðar síðustu 25 mínútur leiksins.

HK sýndi yfirburði í fyrri hálfleik og tók forystuna með stórfurðulegu skallamarki í kjölfar hornspyrnu. Boltinn endaði í þverslánni og barst þaðan til Bruno Soares sem var sitjandi á jörðinni en náði að koma hausnum í boltann og skora þannig með skalla úr sitjandi stöðu.  Ótrúlegt en verðskuldað mark.

Gestirnir frá Vogum náðu inn jöfnunarmarki fyrir leikhlé þegar Magnús Andri Ólafsson skoraði með góðu skoti eftir skyndisókn sem miðvörðurinn Arnór Gauti Úlfarsson bjó til með frábærum sprett úr vörninni og var staðan því jöfn í hálfleik. Í upphafi síðari hálfleiks átti Arnór Gauti annan sprett sem skilaði marki en í þetta skiptið var flögguð rangstæða.

Seinni hálfleikurinn hafði verið nokkuð jafn í stöðunni 1-1 en þá þurfti Rafal Stefán Daníelsson að fara meiddur af velli og Þróttarar ekki með neinn varamarkvörð á bekknum. Þá tók Haukur Leifur Eiríksson, varnarmaður Vogamanna, markmannshanskana af Rafal og skellti sér í búrið. Það átti ekki eftir að enda vel og voru heimamenn í HK komnir yfir aðeins fimm mínútum síðar.

Fyrst skoraði Hassan Jalloh með skoti utan vítateigs sem fór þó af varnarmanni og breytti um stefnu áður en hann flaug yfir Hauk Leif í markinu. Ásgeir Marteinsson tvöfaldaði forystu HK með þrumuskoti skömmu síðar og stóð Haukur hreyfingarlaus í markinu. Stuttu eftir þetta leit fjórða markið dagsins ljós og aftur var Hassan á ferðinni, í þetta sinn fékk hann gífurlega mikinn tíma til að athafna sig innan vítateigs og smurði boltanum í samskeytin.

Lokatölur 4-1 fyrir HK og spurning hvort Þrótturum hefði tekist að halda þetta út með Rafal á milli stanganna og Hauk úti á velli. 

HK er á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forystu á Fylki sem á leik til góða. Kópavogsstrákar eru með 37 stig eftir 16 umferðir.

Þróttur situr áfram sem fastast á botni deildarinnar með sex stig, ellefu stigum eftir Grindavík í öruggu sæti.


Athugasemdir
banner
banner
banner