mið 10. ágúst 2022 19:01
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Selfoss rétt marði tíu Þórsara
Lengjudeildin
Tokic skoraði úr vítaspyrnu og fiskaði svo rautt spjald.
Tokic skoraði úr vítaspyrnu og fiskaði svo rautt spjald.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gary skoraði stórbrotið mark með viðstöðulausu skoti eftir útspark.
Gary skoraði stórbrotið mark með viðstöðulausu skoti eftir útspark.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir

Selfoss 2 - 1 Þór
0-1 Harley Willard ('1)
1-1 Hrvoje Tokic ('16, víti)
2-1 Gary Martin ('62)
Rautt spjald: Hermann Rúnarsson, Þór ('36)
Rautt spjald: Jón V. Pétursson, Selfoss ('90)


Lestu um leikinn: Selfoss 2 -  1 Þór

Selfoss og Þór áttust við í spennandi Lengjudeildarslag þar sem Harley Willard skoraði eftir aðeins tuttugu sekúndna leik. Hann nýtti sér mistök í vörn Selfoss, hirti boltann innan vítateigs og skoraði.

Þórsarar voru betri á upphafsmínútunum en Selfyssingar voru fljótir að svara fyrir sig þar sem Gonzalo Zamorano fékk dæmda vítaspyrnu eftir að hafa gert vel að ná stjórn á löngum bolta upp völlinn og fiska brot. Hrvoje Tokic skoraði af vítapunktinum og fór Bjarki Þór Viðarsson, fyrirliði Þórs, meiddur af velli skömmu síðar.

Bæði lið fengu hálffæri næstu 20 mínúturnar í opnum leik en spilin breyttust þegar aftasti varnarmaður Þórs braut á Tokic við vítateigslínuna og fékk beint rautt spjald fyrir. Orri Sigurjónsson var brotlegur og átti að fá spjaldið en Erlendur Eiríksson dómari ruglaðist og sendi Hermann Helga Rúnarsson óvart af velli. Hermann skildi ekkert í þessum dómi og ræddi við Erlend í þrjár mínútur áður en hann yfirgaf loks völlinn.

Selfoss fékk góð færi undir lok fyrri hálfleiks en tókst ekki að nýta þau og mættu gestirnir frá Akureyri tvíefldir inn í seinni hálfleikinn. Það var ekki að sjá að þeir væru manni færri og var þokkalegt jafnræði á vellinum en heimamenn skoruðu þó næsta mark, aftur eftir langa sendingu upp völlinn. Í þetta sinn átti enginn annar en Stefán Þór Ágústsson, markvörður Selfoss, sendinguna og gerði Gary Martin meistaralega að skora með viðstöðulausu skoti. Glæsimark á Selfossvelli og stoðsending skráð á Stefán Þór.

Þórsarar reyndu að koma til baka á lokakaflanum en þeir voru þreyttir og var Stefán flottur á milli stanga heimamanna. Lokatölur urðu því 2-1 og fer Selfoss tímabundið upp í þriðja sæti með sigrinum en þetta er fyrsti sigur liðsins í heilan mánuð. Selfyssingar voru aðeins búnir að næla í eitt stig úr fjórum leikjum fyrir viðureign dagsins. Liðið er með 25 stig eftir 15 umferðir.

Til samanburðar er Þór með 20 stig eftir þetta tap en liðið hafði verið á mikilli siglingu áður en það fór í heimsókn á Selfoss. Þór hafði unnið þrjá leiki í röð en tókst ekki að sigra þann fjórða.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner