Danska meistaraliðið FC Midtjylland og knattspyrnudeild Þórs hafa komist að samkomulagi um að Þórsarinn Sigurður Jökull Ingvason gangi til liðs við danska félagið.
Sigurður er 16 ára gamall markmaður, fæddur árið 2008, og er uppalinn í Þór. Hann flaug ásamt fjölskyldu sinni út í gær og undirritaði sinn fyrsta atvinnumannasamning eftir að hafa klárað læknisskoðun.
Markmaðurinn ungi á enga meistaraflokksleiki á ferlinum en hann hefur tekið þátt í nokkrum landsliðsverkefnum og á tvo U16 ára landsleiki og einn U15 ára landsleik.
„Við erum virkilega ánægðir að sjá Sigga fá tækifæri til að taka þetta skref núna og hlökkum til að fylgjast með hans framþróun í Danmörku. Við teljum að Midtjylland sé frábær staður fyrir Sigga til að halda áfram að taka framförum sem efnilegur markvörður.“ sagði Arnar Geir Halldórsson yfirþjálfari Þórs um Sigurð.