James Garner og Ethan Laird eru efnilegir leikmenn Manchester United sem munu líklega skipta um félag í sumar.
Nottingham Forest, nýliðar í ensku úrvalsdeildinni, hafa mikinn áhuga á Garner sem var í mikilvægu hlutverki hjá félaginu á síðustu leiktíð. Hann kom á lánssamningi í fyrra og spilaði 49 leiki er Forest komst loks upp um deild.
Garner er 21 árs gamall og býr yfir mikilli reynslu úr Championship eftir að hafa spilað þar í tvö tímabil. Fyrsta tímabilinu var skipt í tvennt þar sem hann lék með Watford fyrir áramótin 2020-21 og svo með Forest eftir áramót.
Garner þekkir því vel til hjá Forest eftir að hafa verið á láni hjá félaginu í eitt og hálft ár. Þessi efnilegi miðjumaður á þrjú ár eftir af samningi sínum við Rauðu djöflana.
Ekki er ljóst hvort Garner verði lánaður burt frá félaginu þar sem Erik ten Hag vantar ennþá miðjumann í hópinn. Man Utd er meðal annars að reyna við Adrien Rabiot í sumar en ef það tekst ekki að sækja nýjan miðjumann mun Ten Hag reiða sig á Garner.
Hægri bakvörðurinn Laird var næstum genginn til liðs við Watford á lánssamningi á dögunum en það gekk ekki upp og heldur hann því til Queens Park Rangers í staðinn.
Laird er jafnaldri Garner þar sem þeir eru báðir fæddir 2001 og lék hann á láni hjá Swansea og Bournemouth á síðustu leiktíð. Hann var byrjunarliðsmaður hjá Svönunum en fékk aðeins að spila sex leiki með Bournemouth sem komst svo upp í efstu deild.
Garner á 29 leiki fyrir yngri landslið Englands og Laird 15 en bakvörðurinn hefur ekki spilað fyrir England síðan hann var í U19 liðinu 2019.