„Betra liðið vann í dag. Víkingur kom með gríðarlega stemningu inn í leikinn og ég ræddi það svo sem fyrir leikinn að á svona degi þá getur það svolítið haft áhrif inn í þetta og við vorum bara ekki á deginum okkar í dag." Sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks eftir tapið gegn Víkingum í úrslitum Mjólkurbikarsins.
Breiðablik kom inn í einvígið í kvöld sem sigurstranglegri aðilinn fyrir einvígið en þær sitja á toppi Bestu deildarinnar á meðan mótherjar þeirra í Víking sitja á toppi Lengjudeildarinnar en allt kom fyrir ekki og það voru Víkingar sem fóru með sigur af hólmi.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 Breiðablik
„Við vorum ekki alveg tilbúnar í þetta og fáum þar að leiðandi mark á okkur strax á fyrstu mínútu og það litar auðvitað leikinn og þó við náum að sækja jöfnunarmark að þá fáum við á okkur annað mark rétt fyrir leikhlé og því miður höfðum við það ekki hjá okkur að koma tilbaka eftir það þó að við hefðum í raun gert allt sem að við gátum til þess að reyna það."
„Það tók okkur smá tíma að koma okkur í gang eftir þetta mark en það var þó sterkt að ná allavega að jafna ef að helvítis annað markið þeirra hefði ekki komið fyrir leikhlé þá hefði kannski leikmyndin orðið önnur."
„Það voru alveg móment hjá okkur í seinni hálfleik til þess að jafna leikinn en afþví að það datt ekki inn að þá vorum við farnar að henda öllu fram á við þegar líða fór á leikinn og vorum kannski fáliðaðar tilbaka þegar að þriðja markið kemur."
Breiðablik mætti til leiks með heldur þunnan hóp og lentu í áfalli strax í fyrri hálfleik þegar Hafrún Rakel meiðist og þarf að fara útaf.
„Það var mikið sjokk og mikið áfall og bara gríðarlega svekkjandi og við máttum bara ekki við því."
„Við eyddum mikilli orku og miklum tíma í að reyna fylla inn í hópinn í vikunni og gerðum okkar besta í því. Við þurfum að skoða það betur um helgina og í framhaldinu hvað við gerum varðandi hópinn."
Breiðablik var eins og fyrr segir álitin stekrari aðilinn en sögulínan fyrir leik var máluð upp sem öskubuskuævintýri Víkinga.
„Sögulínan þróaðist einhvernveginn öll í þessa átt bara og við gengum inn í það og þær gengu á lagið."
Nánar er rætt við Ásmund Arnarsson í spilaranum hér fyrir ofan.