Paul Merson, fótboltasérfræðingur Sky Sports, hefur lagt til að Manchester United ráði Gary Neville til að sjá um leikmannamál félagsins.
Man Utd fékk nýja menn til að starfa á bak við tjöldin í sumar; Omar Berrada var ráðinn sem framkvæmdastjóri, Dan Ashworth sem yfirmaður fótboltamála og Jason Wilcox sem tæknilegur ráðgjafi.
Merson hefði hins vegar verið til í að sjá Neville fá starf hjá félaginu.
„Ég hefði fengið einhvern eins og Gary Neville til að sjá um leikmannamálin," sagði Merson.
„Gary var hjá félaginu allan sinn feril og hann veit allt um fótbolta. Þú setur einhvern eins og hann - eða Rio Ferdinand eða bara þá báða - við stjórnvölinn og segir þeim að byggja félagið upp."
Leikmannakaup Man Utd hafa ekki verið sérstaklega góð síðustu ár en liðið hefur farið afar illa af stað á yfirstandandi tímabili.
Athugasemdir