Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   lau 12. janúar 2019 13:00
Magnús Már Einarsson
Doha í Katar
Hugarþjálfari með íslenska landsliðinu í Katar
Icelandair
Ólafur Árnason (til vinstri) er með landsliðinu í Katar.
Ólafur Árnason (til vinstri) er með landsliðinu í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Ólafur Árnason er í starfsliði íslenska landsliðsins í Katar. Ólafur vinnur í hugarþjálfun leikmanna en Erik Hamren, landsliðsþjálfari, vill skoða að bæta hugarþjálfara við starfsliðið til frambúðar.

„Ég þekkti hann ekki fyrir ferðina en hann er með okkur núna og við skoðum síðan hvort að við tökum hann inn í hópinn," sagði Erik Hamren landsliðsþjálfari við Fótbolta.net í dag.

„Við erum með styrktarþjálfara og þjálfara í taktík en að mínu mati er andlegi þátturinn mögulega sá mikilvægasti fyrir leikmenn. Leikmaður þarf auðvitað líka hæfileika, vera góður tæknilega og í taktík, vera í mjög góðu formi og fara vel með líkamann hvað varðar næringu og annað. Það sem er mikilvægast hins vegar er andlegi þátturinn," bætti Erik við.

Erik hefur áður verið með hugarþjálfara hjá liðum sem hann þjálfar.

„Ég var með svona starfsmenn hjá AaB í Danmörku og Rosenborg í Noregi. Ég var ekki með þetta hjá sænska landsliðinu. Ég fann ekki rétta manninn í starfið auk þess sem þetta er erfiðara í framkvæmd í landsliði en félagsliði. Ég veit að Svíar eru núna með hugarþjálfara með sér. Það er mikilvægt að finna rétta manninn og hann þarf að tala sama tungumálið. Þetta getur bætt leikmennina og um leið liðið," sagði Erik.

„Íslensku strákarnir eru nokkuð sterkir andlega miðað við það sem ég hef séð en ef þú getur bætt hvern einstakling um eitt prósent þá erum við ellefu prósentum betri inni á vellinum. Við reynum að bæta okkur og verða betri í öllu."
Athugasemdir
banner
banner
banner