Við sögðum frá því í gær að danska úrvalsdeildarfélagið SönderjyskE væri búið að gera tilboð í Atla Barkarson, vinstri bakvörð Víkinga.
Viðræður eru í gangi og eiga liðin eftir að komast að samkomulagi um kaupverð.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var spurður út í þessi tíðindi eftir leik gegn Fylki í Reykjavíkurmótinu í gær.
„Ég held að það sé líklegt að það séu fjórir, fimm á förum frá Víkingi. Þetta er bara spurning á hvaða tímapunkti. Við erum með það góðan hóp af ungum leikmönnum. Hvort sem það er núna í þessum glugga, í sumar eða eftir eitt eða tvö ár," sagði Arnar.
„Okkur liggur ekkert á að selja neinn. Við erum ekki félag sem þarf að selja til að eiga fyrir salti í grautinn. Ég sem þjálfari vill hafa Atla áfram en ég skil það vel að metnaður hans liggur erlendis. Ef við fáum gott tilboð - hvort sem það er frá SönderjyskE eða frá öðru félagi, þá munum við skoða það."
Þess má geta að Atli spilaði í dag sinn fyrsta A-landsleik þegar Ísland gerði jafntefli gegn Úganda í vináttulandsleik.
Athugasemdir