Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   mán 12. apríl 2021 11:47
Elvar Geir Magnússon
Tilslakanir í vikunni - Boltinn byrjar væntanlega að rúlla
Íslenski boltinn fer væntanlega af stað aftur.
Íslenski boltinn fer væntanlega af stað aftur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar í dag að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra og í samtali við Vísi segir hann að lagðar séu til tilslakanir á sóttvarnareglum.

Núverandi sóttvarnarreglur gilda til 15. apríl.

Búast má við því að æfingar og keppni í fótbolta fái aftur grænt ljós en Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra Íslands, sagði í pistli á dögunum að það væri forgangsmál hjá stjórnvöldum að koma íþrótta- og æskulýðstarfi aftur af stað.

Áætlað var að Pepsi Max-deild karla færi af stað þann 22. apríl en búast má við því að upphaf deildarinnar færist aftur um einhverja daga. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net vilja félögin fá svigrúm til að spila tvo til þrjá æfingaleiki áður en keppni hefst.

Runólfur Pálsson, læknir og einn af yfirmönnum Covid-göngudeildar Landspítala, hefur mikið talað fyrir því að sóttvarnaaðgerðir varðandi fótbolta séu of strangar hér á landi enda smithætta sáralítil.

„Þótt öllum öðrum gildandi sóttvarnarreglum sé fylgt má knattspyrnufólk ekki spyrna bolta á milli sín því boltinn er skilgreindur sem sameiginlegur búnaður. Þetta finnst mér alltof langt gengið því auðvelt er að tryggja að engin smithætta stafi af boltanum," skrifaði Runólfur á Twitter.
Athugasemdir
banner
banner