„Við bara einhvern veginn náðum ekki að spila okkar bolta, fórum ekki eftir plani og það bara gekk ekki upp hjá okkur það sem við ætluðum að gera og Breiðablik nýtti sín tækifæri," sagði Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir, leikmaður Þróttar Reykjavíkur, eftir 6-1 tap gegn Breiðablik í lokaumferð Pepsi-Max deildar kvenna.
Lestu um leikinn: Breiðablik 6 - 1 Þróttur R.
Þróttur R. og Breiðablik mætast aftur í bikarúrslitum þann 1. október. Elísabet telur það hafa verið gott að fá þennan leik á þessum tímapunkti til að máta sig við þær.
„Já klárlega, það er bara mjög fínt að fá þennan leik, vita hvernig þær geta staðið sig. En við getum svo mikið betur þannig að ég er bara spennt fyrir 1. október."
Elísabet segir að þessi leikur í dag muni ekki brjóta niður sjálfstraustið hjá Þrótti.
„Nei alls ekki, þetta er að fara að peppa okkur bara, við eigum eftir að stíga upp og bara gera betur í næsta leik."
Þróttur R. endar í 3. sæti Pepsi-Max deildarinnar og eru sem fyrr segir komnar í bikarúrslit. Elísabet segir þær vera sáttar með frammistöðuna í sumar.
„Jú þetta er bara mjög góð frammistaða, í fyrsta skiptið í sögu Þróttar sem við erum að ná 3. sætinu og við erum bara að bæta met fyrir met, það er bara mjög gott að vera partur af þessu liði," sagði Elísabet að lokum.
Athugasemdir