Manchester United vann Viktoria Plzen í Evrópudeildinni í kvöld á útivelli eftir að hafa lent undir.
Matej Vydra kom Plzen yfir snemma í seinni hálfleik en Rasmus Höjlund skoraði tvennu og tryggði Man Utd sigurinn.
„Þetta var svolítið erfitt. Það var mjög kalt og völlurinn var svolítið eins og mýri en við leystum þetta vel í seinni hálfleik," sagði Höjlund.
Bruno Fernandes lagði upp seinna markið þegar hann var fljótur að hugsa og sendi boltann á Höjlund inn á teiginn úr aukaspyrnu.
„Ég hef séð Bruno gera þetta áður. Ég man eftir marki sem Anthony Martial skoraði þegar hann vippaði boltanum á hann. Mér fannst ég eiga góða möguleika því ég er sterkur, gat ýtt varnarmanninum og snúið hann af mér og klárað færið," sagði Höjlund en þarna vitnaði hann í mark sem Martial skoraði gegn Man City árið 2020.
Athugasemdir