Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 13. febrúar 2023 23:41
Ívan Guðjón Baldursson
Bajcetic lék nýja stöðu: Tæpt ár síðan ég var í U18
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Miðjumaðurinn ungi Stefan Bajcetic var valinn sem besti leikmaður vallarins í 2-0 sigri Liverpool í grannaslag gegn Everton fyrr í kvöld.


Jürgen Klopp og Mohamed Salah hrósuðu táningnum í hástert að leikslokum en Bajcetic er aðeins 18 ára gamall og hefur verið í byrjunarliði Liverpool síðustu fimm leiki í röð.

„Það var mikið af góðum frammistöðum í kvöld og var Stefan með þeim bestu. Við erum ótrúlega ánægðir með hann innan félagsins, þetta er algjör toppstrákur. Hann er mjög gáfaður og rólegur einstaklingur sem var að spila í nýrri stöðu í dag. Hann var að spila áttuna í fyrsta skiptið og hann segir að sér hafi líkað vel við það," sagði Klopp.

Bajcetic er miðvörður að upplagi en Klopp er búinn að breyta honum í miðjumann. Hann hefur verið að spila sem varnartengiliður en sendingagetan er það góð að hann getur einnig spilað ofar á vellinum, sem hann sannaði í dag.

Mohamed Salah skoraði fyrra mark Liverpool í sigrinum og fór í viðtal með Bajcetic að leikslokum.

„Stefan er frábær leikmaður og manneskja. Hann leggur alltaf gríðarlega mikla vinnu á sig og hefur mögulega verið besti leikmaður Liverpool í undanförnum leikjum. Vonandi heldur hann áfram að gera góða hluti fyrir okkur," sagði Salah með skælbrosandi Bajcetic sér við hlið sem svaraði svo sjálfur nokkrum spurningum.

„Mo Salah er líklega einn af bestu leikmönnum í sögu Liverpool, það er alltaf gaman að fá svona hrós frá slíkri goðsögn. Ef ég á að vera heiðarlegur þá bjóst ég við að eiga erfitt uppdráttar í þessum leik því ég var að spila nýja stöðu, en það var allt í lagi og ég naut mín í botn," sagði Bajcetic.

„Þetta hefur verið sturlað. Það er tæpt ár síðan ég var að spila fyrir U18 liðið og núna er ég að spila á Anfield. Þetta gerðist á innan við einu ári og ég er að njóta vegferðarinnar."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner