Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 13. febrúar 2023 17:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Brútal félagaskiptakerfi í Bandaríkjunum - „Finnst þetta ekki í lagi"
Gunnhildur Yrsa gengur inn á Laugardalsvöll.
Gunnhildur Yrsa gengur inn á Laugardalsvöll.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnhildur í landsleik.
Gunnhildur í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var það svakalegasta sem ég hef lent í hjá ferlinum," sagði landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir um það ferli þegar henni var skipt frá Kansas City til Orlando Pride í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Bandarískar íþróttir eru öðruvísi en þar er unnið með það að skipta á leikmönnum, og fá leikmenn yfirleitt engu um það ráðið. Gunnhildur hafði þarna verið að spila með Utah Royals en það félag var leyst upp og varð að Kansas City.

„Það var búið að segja upp Utah og við verðum að Kansas City. Ég fer sjálfkrafa þangað og allt liðið. Konan mín var í Orlando. Ef ég ætlaði ekki að spila með Utah þá vildi ég fara í Orlando og spila með henni. Við vildum vera saman," sagði Gunnhildur í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net.

Eiginkona Gunnhildar er markvörðurinn Erin McLeod en hún var á þeim tímapunkti leikmaður Orlando. Gunnhildur bað því um skipti þangað.

„Kansas City vantaði ekki markvörð, þær voru með þrjá markverði. Orlando vildi fá mig en Kansas vildi ekki leyfa mér að fara. Í tvo mánuði var ég að reyna að fá skipti yfir í Orlando en það gekk ekki."

„Ég átti flug á laugardagsmorgun yfir til Kansas frá Flórída, en ég hringi í þjálfarann á föstudagskvöldinu og spyr hvort það sé ekki einhver séns. Mér langaði að vera með fjölskyldunni minni og ég var mjög hreinskilin með það. Loksins gaf hann eftir og þá var 'trade'," segir Gunnhildur en hún er ekki hrifin af því hvernig leikmönnum er skipt á milli félaga í Bandaríkjunum.

„Þetta er mjög erfiður bransi þarna úti, að kerfið sé svona. Ég hef aldrei verið 'trade-uð' nema í þessu tilfelli og það var af því ég bað um það. Það eru margir liðsfélagar hins vegar búnar að vera á æfingum og svo senda þær SMS um kvöldið að þær séu á leið til Chicago allt í einu. Þetta gerðist einu sinni á leikdegi, stelpa sem var að byrja inn á. Svo var allt í einu kallaður fundur þar sem okkur var tjáð að hún væri að fara. Við vorum í útileik og hún þurfti að fara heim að sækja dótið sitt. Greyið stelpan þurfti að fljúga ein heim og fara næsta dag til Chicago. Hún hafði ekkert við því að segja," segir Gunnhildur og bætir við:

„Mér finnst þetta ekki í lagi. Við erum fullorðið fólk. Ég þekki aðra stelpu sem á tvö börn og henni var skipt. Hún þurfti þá að flytja allt í einu með alla fjölskylduna. Mér finnst þetta brútal."

Hún var mjög þakklát fyrir það að fá að fara til Orlando.

„Þetta gat ekki verið meira á síðustu stundu. Ég var búin að setja í töskur og var búin að sætta mig við það að þetta væri ekki að fara að ganga upp. Ég var að fara til Kansas og það var alveg gaman að þau vildu halda í mig. En svo var ég hreinskilin og sagði frá hjartanu hvernig mér leið. Ég var meiri manneskja fyrir þeim en ekki bara leikmaður. Við það opnuðust dyrnar og ég er mjög þakklát fyrir það," sagði Gunnhildur en hægt er að hlusta á hlaðvarpið í spilaranum hér að neðan. Þar ræðir hún meira um tímann hjá Orlando og margt fleira.
Gunnhildur Yrsa er mætt heim - Kom ekkert annað til greina
Athugasemdir
banner
banner
banner