
Valur hafði í vetur áhuga á því að fá Aron Elí Sævarsson í sínar raðir frá Aftureldingu. Aron er vinstri bakvörður sem er uppalinn hjá Val en hefur verið í Mosfellsbæ undanfarin tímabil og er fyrirliði liðsins.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var spurður út í Aron í viðtali eftir leik liðsins gegn Stjörnunni í Lengjubikarnum. Viðtalið má sjá neðst í fréttinni.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var spurður út í Aron í viðtali eftir leik liðsins gegn Stjörnunni í Lengjubikarnum. Viðtalið má sjá neðst í fréttinni.
„Það er ekkert annað í kortunum en að hann verði með okkur í sumar. Hann hefur verið fyrirliði hjá okkur undanfarin ár og er algjör lykilmaður hjá okkur. Við viljum að sjálfsögðu ekki missa slíka leikmenn. Hann kemur eftir nokkrar vikur og tekur þetta tímabil með okkur. Hann er spenntur að koma heim og klár í að koma með okkur í æfingaferð í apríl," sagði Maggi.
Aron er um þessar mundir í háskólanámi í Bandaríkjunum en mun eins og Maggi segir vera klár þegar Lengjudeildin byrjar í maí.
„Samband okkar er gott, við höfum talað reglulega saman í vetur. Við viljum ekki selja okkar bestu leikmenn, við viljum ná árangri og ef tilboðið endurspeglar ekki það sem við metum að leikmaðurinn kosti þá verður ekkert í því. Hann er sáttur, hefur vaxið gríðarlega síðan hann kom til okkar. Hann kemur frá Val fyrir þremur árum og þá voru engin tækifæri fyrir hann á Hlíðarenda. Hann veit að við höfum hjálpað honum að verða betri leikmaður og hann vil halda áfram að taka þátt í þessu ævintýri sem er í gangi hjá okkur. Við ætlum okkur að gera góða hluti í sumar og hann vill vera með í því."
Aron verður 26 ára í apríl, hann er bróðir Birkis Más Sævarssonar sem er hægri bakvörður Vals.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var einnig til viðtals um helgina. Sigurður Egill Lárusson lék í vinstri bakverði gegn KR og var Arnar spurður hvort að Siggi verði í bakverðinum í sumar.
„Já, ég hef mikla trú á því," sagði Arnar.
Sjá einnig:
„Erum það lið sem hefur verið mest með boltann í leikjum í Lengjudeildinni"
Athugasemdir