Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 13. febrúar 2023 21:00
Ívan Guðjón Baldursson
Í fjórða sinn sem Arsenal tapar stigum útaf dómgæslu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Arsenal er með þriggja stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur en sú forysta væri eflaust stærri ef ekki fyrir stöðug dómaramistök.


Arsenal leiddi 1-0 gegn Brentford um helgina en leiknum lauk með 1-1 jafntefli eftir að Ivan Toney skoraði kolólöglegt jöfnunarmark. Markið fékk að standa eftir nána athugun í VAR herberginu og ákvað Sky Sports í kjölfarið að renna yfir mikilvægar dómaraákvarðanir sem hafa fallið gegn Arsenal á úrvalsdeildartímabilinu.

Sky Sports fann þrjú önnur dómaramistök sem höfðu áhrif á útkomu leikja Arsenal á tímabilinu.

Fyrstu mistökin eru frá 3-1 tapi á Old Trafford í september þar sem opnunarmark Gabriel Martinelli var dæmt af vegna brots í aðdragandanum. VAR-teymið tók eftir brotinu og ákvað að breyta úrskurði dómarans - þó hann hafi ekki gert klár og augljós mistök með að leyfa leiknum að fljóta.

Howard Webb, yfirmaður dómaramála á Englandi, viðurkenndi í desember að VAR herbergið gerði augljós mistök í þessu og fimm öðrum atvikum á fyrri hluta tímabils.

Annað atvikið sem Sky skoðar er vítaspyrnudómur sem Gabriel Jesus átti að fá á fjórtándu mínútu gegn Southampton í október. Jesus var rifinn til jarðar innan vítateigs en Robert Jones dómari neitaði að gefa honum vítaspyrnu.

Þegar atvikið er endurskoðað er þetta augljós vítaspyrna, en Jones sá atvikið gerast og því mat VAR-teymið að ekki væri um augljós dómaramistök að ræða. Dómarinn taldi þetta ekki nægilega mikla snertingu til að flauta.

Staðan var 1-0 fyrir Arsenal þegar atvikið átti sér stað en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Þriðja og síðasta atvikið er svo frá því í janúar þegar Arsenal gerði markalaust jafntefli við Newcastle í toppslag. Þar vildi Mikel Arteta fá 'tvær augljósar vítaspyrnur' en Sky tekur aðeins eina þeirra fyrir sem pottþétta vítaspyrnu.

Það var þegar Dan Burn reif Gabriel Magalhaes til jarðar innan vítateigs í föstu leikatriði. Burn kom í veg fyrir að Gabriel næði til boltans en Andy Madley dómari lét leikinn halda áfram og skarst VAR ekki inní.

Hin vítaspyrnan sem Arteta vildi fá var fyrir hendi. Fyrirgjöf Granit Xhaka fór í hendina á Jacob Murphy innan vítateigs en Madley ákvað að dæma ekki.


Athugasemdir
banner