mán 13. febrúar 2023 23:14
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Litum aftur út eins og Liverpool
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Þessi frammistaða var yfirlýsing frá okkur. Við sönnuðum fyrir sjálfum okkur að við getum þetta ennþá. Í kvöld litum við aftur út eins og Liverpool," sagði Jürgen Klopp eftir 2-0 sigur Liverpool í nágrannaslag gegn Everton í kvöld. „Í kvöld byrja allir að trúa á ný. Við verðum að halda svona áfram."


Liverpool er um miðja deild eftir sigurinn, aðeins níu stigum frá Meistaradeildarsæti og með leik til góða, þrátt fyrir að hafa átt slæmt tímabil hingað til.

Slæmt gengi Liverpool var illskiljanlegt fyrir marga og vonast Klopp til þess að þetta séu tímamótin þar sem gengi liðsins snýst við.

„Ef við viljum komast út úr þessum erfiða kafla þá er þetta eina leiðin út. Við verðum að spila svona vel í hverjum einasta leik ef við viljum sanna að við séum ennþá samkeppnishæfir."

Bæði mörk Liverpool komu eftir skyndisóknir. Fyrra markið kom á viðkvæmum tímapunkti í fyrri hálfleik, aðeins 15 sekúndum eftir að James Tarkowski hafði skallað í stöngina á hinum endanum.

„Við vorum heppnir að skallinn fór í stöngina en svo skoruðum við stórkostlegt skyndisóknarmark. Seinna markið var líka frábært skyndisóknarmark. Utan þess vorum við miklu betra liðið í dag. Ég sá ekki tölfræðina en við höfum verið um 70% með boltann."

Ef Liverpool er búið að finna gamla taktinn sinn aftur þá er þetta fullkominn tímapunktur á tímabilinu vegna þess að framundan eru gríðarlega mikilvægir leikir gegn Newcastle, Manchester United og Real Madrid.


Athugasemdir
banner
banner
banner