Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mán 13. febrúar 2023 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Máni ekki bjartsýnn yfir stöðu mála: Þetta er algjört fíaskó
Jesse Marsch.
Jesse Marsch.
Mynd: Getty Images
Þorkell Máni Pétursson.
Þorkell Máni Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net
Fyrir leik Leeds og Manchester United í gær.
Fyrir leik Leeds og Manchester United í gær.
Mynd: Getty Images
Væri Gerrard góður kostur í starfið?
Væri Gerrard góður kostur í starfið?
Mynd: Getty Images
„Mér líst - satt besta að segja - ekkert sérstaklega vel á þetta. Þetta er algjört fíaskó," sagði fjölmiðlamaðurinn Þorkell Máni Pétursson í hlaðvarpinu Enski boltinn þegar rætt var við hann um Leeds í síðustu viku.

Bandaríkjamaðurinn Jesse Marsch var rekinn úr starfi stjóra hjá Leeds í síðustu viku en úrslitin hafa ekki verið nægilega góð upp á síðkastið. Það er ekki gott andrúmsloft hjá félaginu.

Marsch entist í tæpt ár í starfinu en honum tókst að bjarga liðinu frá síðustu leiktíð.

„Það hafa verið gerð fáránleg mistök," segir Máni um stjóratíð Marsch hjá félaginu. „Jesse Marsch fékk ótrúlega mikið traust. Hann hélt liðinu uppi en menn láta eins og það hafi verið einhver hetjuleg frammistaða. Einu stigin sem Leeds var að taka seinni hlutann á mótinu voru gegn liðum sem voru lakari en Leeds og svo í sigri á Brentford í síðustu umferðinni þar sem níu leikmenn Brentford eru inn á vellinum gegn ellefu Leedsurum."

Máni segir að það hafi ekki verið nægilega vel staðið að leikmannamálum hjá félaginu, Marsch hafi fengið of mikið traust í þeim efnum - of mikil völd.

„Það er bara staðreynd málsins. Svo er ákveðið að selja Raphinha og Kalvin Phillips, sem mér fannst eðlilegt í ljósi þess að félagið fær einhverjar 100 milljónir punda fyrir þá tvo. Svo er ákveðið að kaupa einhverja menn inn í staðinn en þeir hafa ekki á nokkurn hátt náð að fylla í skarðið. Þetta gekk allt út á að ná í leikmenn sem Marsch var búinn að nota hjá Red Bull í austurrísku úrvalsdeildinni."

„Eini gæinn sem er búinn að standa sig af þessum nýju gæum er Gnonto og hann er eini gæinn sem Marsch þekkti ekki þegar hann kemur inn."

„Þetta var stöngin út hjá Marsch... hann segir að stuðningsmenn Leeds séu með óraunhæfar kröfur og eitthvað svona fokking væl," en Máni er á því að liðið þoli ekki pressuna að spila fyrir Leeds.

Það þarf að laga varnarleikinn
Það hefur verið ákveðin Bandaríkjavæðing hjá Leeds undanfarna mánuði. Máni segir að það sé góð hugmynd markaðslega en hann er hræddur um að liðið muni falla. „Það gáfulegasta væri að hringja í Bielsa og biðja hann um að klára þetta. Hann myndi fá stuðningsmennina með sér."

Marcelo Bielsa stýrði Leeds áður en Marsch tók við liðinu. „Því miður er ég ekki sérlega bjartsýnn fyrir mitt lið."

Það er ekki líklegt að Bielsa muni snúa aftur en stjóraleitin hefur gengið brösulega. „Ég var spenntastur fyrir Carlos Corberán hjá West Brom en aðrir stjórar sem eru nefndir, ég hugsa ekki um þá: 'þessi gæi er að fara að gíra okkur upp'. Sean Dyche fannst mér vera ömurleg hugmynd frá upphafi til enda en ég held að þeir þurfi einhvern sem getur gírað þá upp og lagað varnarleikinn. Hann hefði verið frábær kostur í sex mánuði."

„Það þarf að laga varnarleikinn, það þarf að þétta hann. Nuno sem var með Tottenham, ég er sennilega spenntastur fyrir honum núna. Því hann gæti lagað þennan hluta leiksins hjá Leeds. Fram á við eiga þeir alltaf að geta skorað mörk," sagði Máni en hann telur að Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool, væri ekki slæmur kostur.

„Gerrard væri ekki slæmur kostur í að gíra liðið upp ef hann fær alvöru aðstoðarmenn með sér."

Vinnur ekki með honum að vera frá Bandaríkjunum
Ráðningin á Marsch fer ekki í sögubækurnar sem góð ráðning fyrir Leeds. Máni telur að það hafi ekki hjálpað honum að vera Bandaríkjamaður í enska boltanum.

„Það vinnur ekki með honum að vera frá Bandaríkjunum. Fordómarnir eru þannig að það er staðreynd. Ég held að þetta hafi verið klúður frá upphafi til enda," sagði Máni en Marsch var greinilega ekki að ná vel til liðsins. Máni kemur einnig inn á það að leikstíllinn undir stjórn Marsch hafi verið hugmyndasnauður.

Hægt er að hlusta á enska boltann í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan en þar ræðir Máni frekar um það hversu mikilvægt það er fyrir liðið að halda sér uppi á þessu tímabili.
Enski boltinn - Eldræða frá Mána en áhyggjurnar litlar hjá City
Athugasemdir
banner
banner
banner