banner
   mán 13. febrúar 2023 20:40
Ívan Guðjón Baldursson
Neymar: Mun gera mitt besta fyrir PSG út tímabilið
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Neymar og félagar í Paris Saint-Germain hafa verið gagnrýndir eftir tvo tapleiki í röð.


Kylian Mbappe hefur verið fjarverandi vegna meiðsla og bættist Lionel Messi svo við meiðslalistann fyrir síðasta leik, sem lauk með 3-1 tapi gegn Mónakó. Þar áður tapaði PSG gegn Marseille, 2-1, og í báðum leikjunum var meistaraliðið yfirspilað og heppið að tapa ekki stærra.

Fjölmiðlar hafa talað um ósætti innan raða PSG þar sem Neymar er sagður hafa rifist við tvo liðsfélaga sína og Ivan Campos yfirmann fótboltamála. Sögusagnir segja að PSG vilji losa sig við Neymar næsta sumar, en ljóst er að það gæti reynst afar erfitt af fjárhagsástæðum.

„Ég skil gagnrýnina en mér líður mjög vel. Ég mun halda áfram að gera mitt besta fyrir Paris Saint-Germain út tímabilið," sagði Neymar, en samningur hans við PSG gildir til 2025 með möguleika á eins árs framlengingu.

„Ég er með mikið sjálfstraust og við munum reyna að sýna bestu útgáfuna af PSG."

PSG trónir á toppi frönsku deildarinnar en er aðeins með fimm stiga forystu á Marseille eftir þrjú töp og eitt jafntefli í síðustu sjö deildarleikjum.

Það er algjört lágmark að Frakklandsmeistararnir sigri deildina en aðalmarkmið félagsins undanfarin ár hefur verið að vinna Meistaradeild Evrópu. PSG á stórleik þar við FC Bayern annað kvöld og búist er að við að Messi og Mbappe verði klárir í slaginn. Þeir eru báðir í leikmannahópi PSG.

Neymar er kominn með 17 mörk og 16 stoðsendingar í 27 leikjum á tímabilinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner